Langvarandi Covid í stuttu máli

Þegar niðurstöður úr rannsókn ÍE eru teknar saman virðast vera litlar líkur á langvarandi einkennum eftir lítil veikindi af völdum COVID-19. Þetta eru ánægjulegar fréttir í ljósi þess að 80% fólks fær væg eða einkenni einkenni þegar það sýkist, og er það hlutfall ennþá hærra hjá yngra fólki. Það vel þekkt hverjir veikjast illa; það er eldra fólk og fólk með undirliggjandi áhættuþætti. Ungt og heilbrigt þarf því ekki að hafa miklar áhyggjur af langvarandi Covid ef það skyldi sýkjast.

Rannsóknin sýndi einnig fram á mikilvægi þess að hugsa vel um heilsuna til að draga úr líkum á langvarandi veikindum. Þeir sem höfðu verra áreynsluþol fyrir sýkingu veiktust verr, og þ.a.l. lengur. Það var því leitt að heyra að helmingur þátttakenda í rannsókninni sögðust hreyfa sig minna í faraldrinum en fyrir hann, óháð því hvort þau hefðu fengið Covid eður ei.

Rannsakendur lögðu áherslu á að þeir sjái ekki merki um útbreiddan líffæraskaða. Einkennin virðast ýmist vera huglæg eða tengjast skertu áreynsluþoli eftir öndunarfærasýkinguna, en með þolinmæði, jákvæðni og heilbrigðu líferni má binda vonir við að fólk nái brátt bata.

Greinin var birt í Morgunblaðinu 11. maí 2021

Í töflunni má sjá hlutfall fólks með langvarandi einkenni eftir því hversu mikið þeir veiktust af COVID-19.

14% þeirra sem smituðust aldrei af SARS-CoV-2 voru samt með einkenni sem eru sambærileg langvarandi einkennum Covid. Aðeins 18% þeirra sem veiktust lítið voru með einkenni. Það má því gera ráð fyrir að Covid útskýri einkennin hjá 4% þeirra sem veiktust lítið.

Það er lítill munur á tíðni langvarandi einkenna á borð við mæði, þreytu og einbeitingarskort hjá þeim sem veiktust lítið af COVID-19 og þeim sem smituðust aldrei af SARS-CoV-2.

Rannsakendur útskýra þó að þau geti “ekki útilokað að einstaklingar með meiri einkenni hafi frekar tekið þátt í rannsókninni.” E.t.v. er líklegra að þeir sem eru með einkenni samþykki þátttöku heldur en þeir sem eru einkennalausir (e. selection bias), sem þýðir að munurinn milli þeirra sem veiktust og þeirra sem veiktust ekki gæti verið ennþá minni. Þeir sem veikjast lítið eru því ólíklegir til þess að finna fyrir langvarandi einkennum.

Fyrirlestur Íslenskrar Erfðagreiningar má sjá á fésbókarsíðu þeirra. Erindi Hilmu og Ernu um langvarandi einkenni Covid hefst í kringum fertugustu mínútu.