Bólusetningar

Mars 2021

Það var undraverður árangur að þróa mjög virk bóluefni gegn COVID-19 á innan við ári. Mikillar bjartsýni gætti í byrjun þessa árs, en því miður virðast bólusetningar taka lengri tíma en búist var við enda framboð í engu samræmi við eftirspurn. Bóluefnin hjálpa til við að stöðva faraldurinn þar sem þau snarminnka líkur á alvarlegum sjúkdómi og minnka líka líkur á að smita  aðra af COVID-19. Að sýkjast af COVID-19 er líka mjög góð vörn við sjúkdómnum. Ekki er vitað hversu lengi náttúrulegt ónæmi gegn COVID-19 endist, en endursýkingar hafa verið gríðarlega fátíðar hingað til og einkenni hafa yfirleitt verið vægari í seinna skiptið. Vitað er að náttúrulegt ónæmi getur varað lengi, því það hefur t.d. fundist ónæmissvar við spænsku veikinni hjá einstaklingum sem fengu þá pest mörgum áratugum fyrr, en þetta getur verið misjafnt milli einstaklinga og veira. Óvissa ríkir um virkni bóluefna gegn stökkbreyttum afbrigðum en hingað til virðist hún nokkuð góð, a.m.k. er góð virkni til að hindra alvarlegan sjúkdóm sem skiptir jú mestu máli.

Fyrri skammtur bóluefna gefur mjög góða vernd

Nú berast líka þær góðu fréttir að fyrri skammtur Pfizer bóluefnis virðist gefa nálægt 90% vernd gegn COVID-19 (Hunter & Brainard, 2021). Seinni skammturinn hækkar þessa tölu upp í 95%. Moderna bóluefnið gefur 80% vörn eftir fyrsta skammt. Nýleg rannsókn frá CDC sýnir svo um 80% vörn hjá bæði Pfizer og Moderna eftir fyrri skammt sem fer upp í 90% vörn eftir seinni skammt (Thompson et al, 2021). Seinni skammturinn eykur því virkni ekki mikið. Fyrstu niðurstöður rannsókna á bóluefnum gáfu til kynna að virkni fyrri skammts væri um 50%, en í þeim rannsóknum voru öll smit tekin með, þó vitað sé að það tekur um 2 vikur fyrir bóluefnið að ná upp virkni. Þegar einungis er litið til þeirra sem smituðust meira en tveimur vikum eftir fyrri bólusetningu, þá virðist fyrri skammtur Pfizer bóluefnis gefa um 90% vernd.

Nýleg vísindagrein frá Bretlandi, byggð á 7.5 milljón einstaklingum 70 ára og eldri sýnir að bæði AstraZeneca og Pfizer bóluefnið gefur mjög góða vernd eftir fyrri skammt bóluefnis sem nær hámarki eftir 3 vikur og helst stöðug eftir það (Bernal et al, 2021). Nýleg rannsókn byggð á gögnum frá Ísrael sýnir að sýkingum fjölgaði mjög á fyrstu 8 dögum eftir fyrri bólusetningu (v. breyttrar hegðunar etv) en fer svo hratt fækkandi og eftir 21 dag er hámarksvernd náð, eða um 90% (Hunter & Brainard, 2021). Þetta er áður en seinni skammtur er gefinn. Önnur rannsókn sem skoðar eingöngu sýkingar 2 vikum eftir gjöf fyrri skammt sýnir 92.6% virkni Pfizer bóluefnis eftir fyrr skammt (Fernando et al, 2020).

Jafnframt er mikilvægt að hafa í huga að þeir fáu sem sýkjast eftir fyrri bólusetningu fá yfirleitt væg einkenni og eru alvarleg veikindi afar sjaldgæf í þessum hópi. Nú er ekki vitað hversu lengi bóluefnin verja okkur og á það við bæði ef við fáum einn skammt eða tvo. Nýlegar rannsóknir sýna þó að bóluefni Moderni gefur mjög góða vernd 6 mánuðum eftir gjöf (Doria-Rose et al, 2021). Hins vegar eru vísbendingar um að jafnvel sé betra að bíða lengur með seinni skammt bóluefnis til að fá langtímavernd, eins og sýndi sig t.d. í bólusetningum við HPV sýkingu og líka í rannsóknum á Astra-Zeneca bóluefninu. Þar fæst betri vernd ef beðið er í 3 mánuði milli skammta (Voysey et al, 2021). Við vitum samt vissulega ekki hvað er best að gera til að hámarka langtímavernd bóluefna gegn COVID-19 en ólíklegt er að það minnki langtímavirkni að seinka seinni skammti um 2 mánuði.

Bretar tóku djarfa ákvörðun

Bretar tóku þá ákvörðun að seinka gjöf seinni skammts bóluefna og gefa hann 3 mánuðum eftir fyrri skammtinn. Þetta er gert til þess að hægt sé að bólusetja sem flesta á sem skemmstum tíma og þannig hámarka vernd bóluefna fyrir samfélagið í heild. Rannsóknir höfðu sýnt fram á betri virkni AZ bóluefnis með því að bíða í 3 mánuði milli skammta, en Bretar fóru þvert á ráðleggingar Pfizer og Moderna og biðu líka í 3 mánuði á milli fyrri og seinni skammts þeirra bóluefna. Svo virðist sem Bretar hafi veðjað á réttan hest og hefur nýsmitum í Bretlandi fækkað um 80% síðan 10. janúar, þrátt fyrir hið „bráðsmitandi“ breska afbrigði. Þegar niðurstöður rannsókna gefa til kynna mjög góða vernd eftir einn skammt bóluefnis þá er siðferðilega erfitt að réttlæta að láta hluta fólks vera algjörlega óvarið á meðan aðrir fikra sig úr 90% í 95% vernd. Þetta á sérstaklega við í löndum þar sem faraldurinn er útbreiddur og margir deyja af hans völdum á degi hverjum, en einnig í öðrum löndum þar sem liggur á að ná útbreiddu ónæmi svo hægt sé að afnema skaðlegar sóttvarnaraðgerðir.

Staðan á Íslandi

Við búum svo vel að eiga heima á strjálbýlasta landi Evrópu og að vera eyja lengst norður í hafi. Við erum líka vel upplýst þjóð og lítið og samheldið samfélag. Það hefur því gengið nokkuð vel að takast á við faraldurinn hér, þ.e.a.s. að því leyti að takmarka smit og afleiðingar þeirra. Hins vegar hafa afleiðingar af aðgerðum gegn faraldrinum verið alvarlegar og þær eru sennilega ekki komnar að fullu fram enn. Þar má nefna seinkun nauðsynlegra skurðaðgerða og skimunar við krabbameinum, aukið ofbeldi gegn börnum, aukið heimilisofbeldi og aukna drykkju áfengis og vandmál því tengd. Ísland er háðara ferðamannastraumi en löndin í kringum okkur og nú er svo komið að við erum með mesta atvinnuleysi á Norðurlöndum. Það er vel þekkt að atvinnuleysi leiðir af sér dauðsföll og fleiri hörmungar. Ríkissjóður starfar í ósjálfbæru umhverfi og safnar skuldum sem mun koma niður á nauðsynlegri þjónustu og velferð á komandi árum. Þetta alvarlega ástand á Íslandi skapast að mestu vegna aðgerða gegn COVID-19 en leggst misjafnlega illa á samfélagið. Þeir sem eru í fílabeinsturni akademíunnar og/eða í þægilegu starfi hjá ríkinu hafa það bara nokkuð gott. Það eru þessir aðilar sem hafa mestan aðgang að fjölmiðlum og stýra því umræðunni. Heyrst hefur að þessi leið Breta sé ekki nauðsynleg hérlendis vegna þess að staðan sé svo góð hérlendis og að „okkur liggi ekkert á“. Það er hins vegar ekki rétt, því bæði er staðan slæm eins og útlistað var að ofan, en jafnframt erum við enn berskjölduð gagnvart nýjum bylgjum enda getur veiran skotið upp kollinum hvenær sem er og það jafnvel þó að við séum með strangar aðgerðir á landamærum.

Þess má geta að sama aðferð og Bretar hafa beitt (að seinka seinni skammti bóluefnis) er nú líka við lýði í Finnlandi og í Kanada. Finnland er í svipaðri stöðu og Ísland m.t.t. fjölda smita/dauðsfalla miðað við höfðatölu en töldu samt rétt að fara þessa leið. Hún á því ekki einungis við um lönd sem eru að glíma við mjög útbreiddan sjúkdóm í samfélaginu.

Næstu skref í bólusetningum

Aðgerðir gegn COVID-19 valda miklu samfélagslegu tjóni. Það er því nauðsynlegt að stytta faraldurinn og aðgerðir gegn honum eins og kostur er. Hver vika skiptir máli.  Í ljósi nýjustu gagna er ekki siðferðislega verjandi að halda áfram með bólusetningar eins og stefnt var að. Við eigum að fara að dæmi Bretlands, Kanada og Finnlands og lengja bilið milli allra bólusetninga um 3 mánuði. Þannig er hægt að klára fyrri bólusetningu landsmanna mun fyrr en ella og gefa sem flestum öfluga vernd gegn COVID-19 á sem skemmstum tíma. Þegar búið er að bólusetja framlínustarfsfólk og fólk í áhættuhópum (eldri en 60 ára og/eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma) er hægt að minnka hratt hömlur innanlands og gefa tóninn fyrir gott ferðamannasumar en þar eru gífurlegir hagsmunir í húfi. Mikill ferðavilji er til staðar og fjöldi bólusettra eykst hratt. Það er ekki nauðsynlegt að bólusetja alla til þess að opna samfélagið þar sem hætta ungs fólks á alvarlegum veikindum vegna COVID-19 er mjög lág og ávinningur vs. áhætta bólusetningar er ekki eins ljós hjá t.d. fólki á aldrinum 18-29 ára. Með því að flýta bólusetningu er hægt að minnka að einhverju leyti þann óbeina skaða sem aðgerðir gegn COVID-19 valda og koma lífinu í eðlilegra horf í byrjun sumars.

Heimildir

Hunter PR, Brainard J. Estimating the effectiveness of the Pfizer COVID-19 BNT162b2 vaccine after a single dose. A reanalysis of a study of ‘real-world’ vaccination outcomes from Israel. medRxiv 2021.02.01.21250957; doi: https://doi.org/10.1101/2021.02.01.21250957

Thompson MG, Burgess JL, Naleway AL, et al. Interim Estimates of Vaccine Effectiveness of BNT162b2 and mRNA-1273 COVID-19 Vaccines in Preventing SARS-CoV-2 Infection Among Health Care Personnel, First Responders, and Other Essential and Frontline Workers — Eight U.S. Locations, December 2020–March 2021. MMWR Morb Mortal Wkly Rep 2021;70:495–500. DOI: http://dx.doi.org/10.15585/mmwr.mm7013e3

Jamie Lopez Bernal, Nick Andrews, Charlotte Gower, Julia Stowe, Chris Robertson, Elise Tessier, Ruth Simmons, Simon Cottrell, Richard Roberts, Mark O’Doherty, Kevin Brown, Claire Cameron, Diane Stockton, Jim McMenamin, Mary Ramsay. Early effectiveness of COVID-19 vaccination with BNT162b2 mRNA vaccine and ChAdOx1 adenovirus vector vaccine on symptomatic disease, hospitalisations and mortality in older adults in England. medRxiv 2021.03.01.21252652; doi: https://doi.org/10.1101/2021.03.01.21252652

Fernando P. Polack, M.D., Stephen J. Thomas, M.D., Nicholas Kitchin, M.D., Judith Absalon, M.D., Alejandra Gurtman, M.D., Stephen Lockhart, D.M., John L. Perez, M.D., Gonzalo Pérez Marc, M.D., Edson D. Moreira, M.D., Cristiano Zerbini, M.D., Ruth Bailey, B.Sc., Kena A. Swanson, Ph.D. Safety and Efficacy of the BNT162b2 mRNA Covid-19 Vaccine. N Engl J Med 2020.12.31; 383:2603-2615. DOI: 10.1056/NEJMoa2034577

Nicole Doria-Rose, Ph.D., Mehul S. Suthar, Ph.D. et al. Antibody Persistence through 6 Months after the Second Dose of mRNA-1273 Vaccine for Covid-19. N Eng J Med 2021.04.06. DOI: 10.1056/NEJMc2103916

Merryn Voysey, Sue Ann Costa Clemens, Shabir A Madhi et al. Single-dose administration and the influence of the timing of the booster dose on immunogenicity and efficacy of ChAdOx1 nCoV-19 (AZD1222) vaccine: a pooled analysis of four randomised trials. The Lancet Volume 397, ISSUE 10277, P881-891, March 06, 2021. DOI:https://doi.org/10.1016/S0140-6736(21)00432-3

Tengiliðir

Dr. Jón Ívar Einarsson, jeinarsson@bwh.harvard.edu

Sigríður Á. Andersen, saa@althingi.is

Þorsteinn Siglaugsson, thorsteinn.siglaugsson@insead.edu

Erling Ó. Kristjánsson, erlingoskar@tutanota.com