Dánartíðni

Apríl 2021

Samantekt

 • Í október 2020 áætlaði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, að um 10% jarðarbúa hefðu smitast af SARS-COV-2. Eftir veturinn er sú tala sennilega komin vel yfir einn milljarð. Það er ljóst að margir sem smitast af Covid fá ekki greiningu.
 • WHO hefur gefið rannsókn sem áætlar að um 0,23% þeirra sem smitast af Covid láti lífið.
  Þeir áætla þó að dánartíðni sé aðeins 0,05% hjá fólki undir sjötugu.
 • Aðrar rannsóknir sýna að dánartíðni er aðeins um
  • 0,015% fyrir heilbrigt fólk á sextugsaldri,
  • 0,003% fyrir heilbrigt fólk á fimmtugsaldri,
  • 0,0012% fyrir heilbrigt fólk á fertugsaldri,
  • 0,0003% fyrir heilbrigt fólk á þrítugsaldri og
  • 0,00004% fyrir heilbrigt fólk undir tvítugu.
 • 96,6% allra Covid andláta í Svíþjóð hafa verið meðal fólks sem er 60 ára og eldra,
  jafnvel þó um 84,4% greindra smita séu hjá fólki undir sextugu.
  Hin 3,6% andlátanna voru flest hjá fólki með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma.
 • Breska afbrigðið er talið vera um 65% banvænna en ótilgreind afbrigði, en 65% aukning á mjög lágri tíðni er mjög lítil aukning. Sem dæmi, þá er 65% aukning á 0,003% um það bil 0,005%.
 • Dánartíðni barna er viðkvæmt viðfangsefni, en því miður láta börn stundum lífið.
  Covid er hins vegar gríðarlega ólíklegt til að valda barni alvarlegum skaða eða dauðsfalli.
  • Í Bandaríkjunum láta fleiri börn lífið af völdum flensu á ári hverju en létust af völdum Covid síðastliðið ár, þrátt fyrir að fleiri hafi smitast af Covid síðastliðið ár en smitast árlega af flensu.
  • Í Englandi & Wales hafa 14 börn undir fjórtán ára aldri látist af völdum Covid, en árið 2020 létust um 3200 börn á þessum aldri í löndunum tveimur, svo dauðsföll tengd Covid eru mjög lítið hlutfall og ætti ekki að vera þeirra stærsta áhyggjuefni.
  • Á Íslandi látast 20 börn á hverju ári, flest vegna langvinnra sjúkdóma, fíkniefnaneyslu eða sjálfsvíga.
  • Ef fjöldi dauðsfalla meðal barna í löndum þar sem Covid hefur verið útbreitt er færður yfir á íslenska höfðatölu, þá væri um minna en eitt dauðsfall að ræða.
  • Sóttvarnaraðgerðir eru líklegri til að valda fleiri börnum meiri skaða en Covid getur valdið þeim.

Næstu skref

Áætlaður lestími fyrir þessa grein er 10-15 mínútur.

Samantekt greinarinnar inniheldur helstu punktana, en greinin útskýrir sérhvert atriði betur, fer nánar út í suma þætti og fjallar um heimildirnar og rannsóknirnar sem leiða þessar niðurstöður í ljós. Dánartíðni barna er viðkvæmt viðfangsefni, svo við mælum með því að fólk lesi um það og önnur dánarmein. Engu að síður þá kjósa sumir lesendur að lesa samantektina og færa sig svo yfir í aðrar greinar sem eru styttri.

Afleiðingar sjúkdómsins COVID-19 sem veiran SARS-COV-2 veldur hafa valdið mörgum miklu hugarangri. Nú hefur heimsfaraldurinn staðið yfir í rúmlega eitt ár. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO greinir frá yfir hundrað milljón staðfestum smitum, en í október áætluðu þeir þó að um 760 milljónir hafi sýkst á heimsvísu, því mörg smit greinast aldrei. Margir hafa veikst illa og á þriðja milljón manns látið lífið af völdum veirunnar. Þetta hefur verið átakanlegt tímabil og margir óttast að veiran verði þeim að bana eða valdi þeim varanlegum skaða. Það er margt sem ber að greina frá þegar kemur að Covid, en þessi grein mun einblína á dánartíðni og fjalla um líkurnar á að deyja af völdum Covid. Skoðaðir verða mismunandi aldurshópar og áhættuþættir, og tölfræði verður borin saman við önnur dánarmein. Lögð verður áhersla á heilbrigt fólk undir sextugu, því stefnt er að því að ljúka bólusetningu þeirra sem eru sextíu ára og eldri í lok maí, samhliða því sem lokið verður við bólusetningu fólks með langvinna undirliggjandi sjúkdóma. Hverjum einstaklingi ber að upplýsa sjálfan sig svo hann geti mótað sér skoðun, og þó fréttir greini frá ýmsu, þá þarf að rýna í tölfræði og niðurstöður úr rannsóknum, og setja hlutina í samhengi til þess að öðlast skilning á lífinu og dauðanum.

Það eru ýmsar leiðir til að fjalla um dánartíðni af völdum sjúkdóms. Í þessari grein verður lögð höfuðáhersla á eftirfarandi stærðir:

 1. Fjöldi dauðsfalla per smit (e. infection fatality rate), hér eftir nefnt dánartíðni per smit.
  Þessi stærð gefur hugmynd um líkur á því að deyja smitist maður af Covid.
 2. Fjöldi dauðsfalla per greint smit (e. case fatality rate).
  Þessi stærð gefur hugmynd um líkur á því að deyja greinist maður með Covid. 

Til þess að skilja umræðuna um dánartíðni þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að margir sem smitast af Covid greinast ekki

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, telur að í Bandaríkjunum hafi 4,6 manns smitast fyrir hvern einn sem hefur greinist. Á Íslandi greinist sennilega stærra hlutfall þeirra sem smitast, sökum þess að hérlendis er mikið skimað eftir veirunni og hér hefur verið virk smitrakning, en þó greinast alls ekki allir sem smitast. Ástæða þess er meðal annars sú að allt að 80% þeirra sem smitast fá væg eða engin einkenni, og fólk sem verður ekki vart við einkennin fer sjaldnast í skimun nema það hafi verið í nánum kynnum við einstakling sem greindist smitaður. Þar sem veikara fólk er líklegra til að greinast og láta lífið, þá verður dánartíðni per greint smit alltaf hærri en hin eiginlega dánartíðni per smit.

Dánartíðni per smit

Við höfum því aðallega áhuga á dánartíðni per smit, því sú tala gefur mestar upplýsingar um hættuna sem einstaklingi stafar af sjúkdómnum. Þessi tala er yfirleitt áætluð út frá rannsóknum á mótefnum við Covid.

Í upphafi sumars 2020 birti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, skýrslu sem sýndi að dánartíðni per smit fyrir Covid sé um það bil 0,23% á heimsvísu (Ionnidis, 2020). Það þýðir að um það bil einn af hverjum 435 sem smitast af Covid muni láta lífið með veiruna. Sama rannsókn leiddi í ljós að dánartíðni per smit meðal fólks undir sjötugu sé um 0,05%, sem þýðir að um það bil einn af hverjum 2000 þeirra sem eru undir sjötugu og smitast af Covid mun láta lífið með veiruna. Þessar tölur innihalda fólk með undirliggjandi sjúkdóma, en það styttist ört í að bólusetning verði þessu fólki  aðgengileg. Hér að neðan verður fjallað sérstaklega um dánartíðni hjá yngra fólki.

Þó 0,23% hlómi eins og lág tala, þá er hún fjarri því að vera ómerkileg. Ef 435.000 manns smitast þá deyja þúsund, og ef 435 milljónir manna smitast þá deyr ein milljón. Nú hafa á þriðju milljón manns látist með veiruna, sem getur gefið til kynna að 1,3 milljarðar kunna að hafa smitast á heimsvísu. Hér er því alls ekki verið að gera lítið úr sjúkdómnum og alvarleika hans, heldur er einungis verið að benda á staðreyndir.

Það er þó margt sem hefur áhrif á dánartíðnina, eins og meðalaldur fólks og heilsa þeirra, hverjir smitast og hve vel heilbrigðiskerfin ráða við álagið. Undir kjöraðstæðum í sumum löndum þá getur dánartíðnin því verið lægri, og í öðrum löndum getur hún verið hærri. Þessi dánartíðni frá WHO er reiknuð út frá fjölda látinna og áætluðum fjölda smitaða í mörgum löndum, svo hún tekur tillit til margra þessara þátta.

Þann 7. apríl 2021 var dánartíðni per greint smit á Íslandi 29 af 6090, eða um 0,476%. Tuttugu af þeim sem létust voru yfir 80 ára aldri, um eða yfir meðallífslíkum Íslendinga, jafnvel þó mikill minnihluti smita hafi verið í þeim aldursflokki. Dánartíðni per smit á Íslandi er hins vegar lægri, því eins og Íslensk Erfðagreining greindi frá í rannsókn sem New England Journal of Medicine birti í september 2020, þá var útlit fyrir að dánartíðni per smit væri um 0,3% hér á landi í fyrstu bylgjunni. Höfundar greinarinnar áætluðu að 0,9% þjóðarinnar eða um 3240 manns hefðu smitast fyrir þann tímapunkt, en aðeins um 1800 manns höfðu greinst, svo áætlaður fjöldi smita var tæplega 80% hærri en fjöldi greindra smita (Gudbjartsson et al, 2020).

Breska afbrigðið

Þann 10. mars 2021 birti British Medical Journal ritrýnda grein um dánartíðni breska afbrigðisins (B.1.1.7) borið saman við dánartíðni af völdum annarra afbrigða. Rannsóknin skoðaði einungis fólk yfir þrítugu, sennilega þar sem sárafáir látast af völdum veirunnar undir þrítugu. Hlutfall viðfangsefna yfir áttræðu var einnig tiltölulega lágt, en margir aldraðir í Bretlandi höfðu þegar verið bólusettir þegar rannsóknin var gerð. Fylgst var með fólki yfir hávetur, meðan ónæmiskerfi þeirra er veikara en á öðrum árstíðum. Niðurstaðan var sú að 0,25% þeirra sem greindust með önnur afbrigði létu lífið, meðan 0,41% þeirra sem greindust með breska afbrigðið létu lífið. Dánartíðni per greint smit af völdum breska afbrigðisins er því um 64% hærri en af völdum annarra afbrigða (Challen R et al, 2021).

Önnur rannsókn sem var birt í Nature telur að breska afbrigðið sé um 61% banvænna, og sú rannsókn staðhæfir að dánartíðni per greint smit hjá fólki á aldrinum 55 til 69 ára sé því 0,9% fyrir breska afbrigðið en hafi áður verið 0,6%, en talsvert lægri hjá fólki undir fimmtugu (Davies et al, 2021).

Báðar þessar rannsóknir fjalla um dánartíðni per greint smit, en dánartíðni per smit eru lægri því mörg smit greinast ekki. Auk þess er meirihluti þessara dauðsfalla hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma eða með undirliggjandi sjúkdóma, en það fólk verður bólusett á næstu tveimur mánuðum. Þó haldbærar upplýsingar um dánartíðni per smit liggi ekki fyrir, þá má áætla að munurinn sé svipaður. 64% aukning breytir litlu fyrir heilbrigt fólk undir sextugu, þar sem veiran er mjög ólíkleg til að draga manneskju úr þessum hópi til dauða, óháð því hvort viðkomandi smitist af breska afbrigðinu eða öðru.

Aldurshópar og undirliggjandi sjúkdómar

Í ágúst 2020 birti British Medical Journal Global Health ritrýnda grein sem brýtur dánartíðni per smit upp á aldurshópa, eftir því hvort viðkomandi sé með undirliggjandi sjúkdóma (e. comorbidity), og eftir því hversu ríkt landið er. Þar kemur fram að dánartíðni þeirra sem eru ekki með neitt undirliggjandi og búa í ríku landi eins og Íslandi, er á bilinu 0.00004% til 0.01850% fyrir fólk á aldrinum 0 til 59 ára (Ghisolfi et al, 2020). 

Ef smit dreifast jafnt milli fólks undir sextugu, þá gefur rannsóknin til kynna að það deyi

 • einn af hverjum 2,5 milljónum heilbrigðra einstaklinga sem smitast undir 20 ára aldri, 
 • einn af hverjum 845 þúsund heilbrigðra einstaklinga sem smitast undir 30 ára aldri, eða
 • einn af hverjum 31400 heilbrigðum einstaklingum sem smitast undir 60 ára aldri,

Líkurnar fyrir heilbrigt fólk undir sextugu til að látast af völdum Covid eru því hverfandi, jafnvel þó þær væru 61-64% hærri eins og er útlit fyrir með breska afbrigðið. 64% aukning á einhverju mjög litlu, er ennþá mjög lítið.

Þess ber að geta að rannsóknin hópar saman alla undirliggjandi sjúkdóma, einn eða fleiri, en það getur munað miklu um hvaða sjúkdómur eða sjúkdómar eru undirliggjandi. Sumir undirliggjandi sjúkdómar auka dánarlíkur mjög lítið, meðan aðrir valda meiri hættu. Landlæknisembættið hefur skilgreint þá sjúkdóma sem setja fólk í mesta hættu, og mun fólk með þá sjúkdóma hljóta bólusetningu í apríl og maí, á undan almenningi. Barnaspítali Hringsins telur einna helst að langvinnir lungnasjúkdómar og alvarlegir hjarta- og taugasjúkdómar setji börn í áhættuhóp, meðan aðrir sjúkdómar valda þeim minni áhyggjum. Astmi einn og sér virðist ekki setja einstakling í sérstaka áhættu vegna Covid, og það sama á við um ofþyngd. Vangaveltur um bólusetningar langveikra barna eru í gangi hjá yfirvöldum. Auðvitað eru alltaf einhverjar líkur á að manneskja sé haldin sjúkdóm sem hún veit ekki af, en þær líkur eru mjög litlar. Hins vegar væri ekki vitlaust fyrir fullorðna manneskju í ofþyngd, sem hefur ekki verið greind með neina undirliggjandi sjúkdóma, að fara í læknisskoðun sem fyrst og fá greiningu ef eitthvað finnst.

Fólki yfir sextugu og fólk með undirliggjandi sjúkdóma yfir þrítugu stafar mest hætta af Covid.
Dánartíðni þeirra hópa sem verður búið að bólusetja í lok maí 2021 er feitletruð.
Dánartíðni per smit er lág meðal annars fólks, og ber þeim því ekki að óttast það að láta lífið af völdum veirunnar. 

Vandinn við ofangreinda töflu er hins vegar sá að manneskja sem smitast af SARS-COV-2 getur þróað með sér lungnabólgu og er þá skyndilega komin með undirliggjandi sjúkdóm, þó viðkomandi sé í minni hættu en manneskja með fleiri eða alvarlegri undirliggjandi sjúkdóma. En til þess að einfalda þetta þá má skoða niðurstöður úr annari rannsókn sem var birt í Nature síðastliðinn nóvember, en sú rannsókn brýtur dánartíðni per smit upp eftir kyni og aldri (O’Driscoll et al, 2021).

Dánartíðni er lág hjá ungu fólki. Heilbrigð manneskja í ríku landi getur rúnað tölurnar aðeins niður til að áætla líkurnar á að hún deyi ef hún smitast af Covid.
Dánartíðni þeirra hópa sem verður búið að bólusetja í lok maí 2021 er feitletruð, en að auki verður búið að bólusetja yngra fólk sem í áhættuhópi vegna undirliggjandi sjúkdóma.

Til samanburðar hafa 20 látist af þeim 124 yfir áttræðu sem hafa greinst smitaðir á Íslandi, svo fyrir þann aldurshóp er dánartíðni per greint smit 16,12% (metið 19. mars 2021). Stór hluti þeirra sem létu lífið smituðust þegar þeir lágu á Landakotsspítala, veikir af völdum annarra sjúkdóma. Enginn Íslendingur undir sextugu hefur látist af völdum veirunnar hérlendis, en einn smitaður ástralskur ferðamaður sem var ekki með dæmigerð einkenni fyrir Covid lét lífið síðastliðið vor. Ekki hefur verið formlega tilkynnt um dánarorsök hans eða heilsufar.

Til þess að fá betri mynd af því hvernig áhættan dreifist eftir aldri þá er hægt að skoða aldursdreifingu greindra smita og andláta í Svíþjóð, þó líklegt sé að talsvert fleiri hafi smitast þar í landi án þess að greinast. Það er greinilegt að langflest andlát eru meðal fólks yfir sextugu, en önnur andlát eru aðallega hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma, sem verður bólusett hér á landi fyrir lok maí.

Þó dánartíðni fólks undir tvítugu sé 0,003%, þá þýðir það samt að þrjár ungar manneskjur láti lífið af hverjum 100 þúsund sem smitast. Í Svíþjóð hafa 12 einstaklingar undir tvítugu látið lífið, sem getur gefið til kynna að um 400 þúsund hafi smitast, en í Svíþjóð eru rúmlega tvær milljónir manna á þessum aldri. Það er ekki ómögulegt að 20% af þessu unga fólki hafi smitast, þar sem um 40% Svía sem fóru í mótefnamælingu í þrettándu viku ársins 2021 mældust með mótefni.

Um 96,6% allra andláta sem bendluð eru við Covid eru meðal fólks yfir sextugu,
þó svo að 83,5% greindra smita séu hjá einstaklingum undir sextugu.
Hlutföllin eru sambærileg í öðrum löndum. Covid er því aðallega hættulegt öldruðum.

Smitstuðull

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, hefur áætlað fjölda andláta eftir smitstuðli SARS-COV-2 í sínu landi. Smitstuðulinn, R0, segir til um hve marga sérhver smitaður einstaklingur smitar. Smitstuðullinn hefur áhrif á dánartíðni því ef hann er hár þá geta smit breitt hratt úr sér og náð til margra með þeim afleiðingum að heilbrigðiskerfið ráði illa við það. Ýmsir þættir hafa áhrif á smitstuðulinn, eins og þéttleiki byggðar, hegðun almennings þegar kemur að snertingu og samneyti við aðra, árstíðir, sumar sóttvarnaraðgerðir og hlutfall fólks sem er ónæmt eða varið fyrir smiti. Það gefur auga leið að ef smitberi hefði smitað tvo manns, en annar þeirra var ónæmur, þá smitast bara einn. CDC áætlar að smitstuðull SARS-COV-2 sé um það bil 2,5. Bandaríkjamenn hafa þó verið illa haldnir af Covid, og virðist dánartíðni þar vera hærri en í mörgum öðrum vestrænum ríkjum. Smitstuðullinn gæti hæglega verið lægri hér á landi, sérstaklega yfir sumartímann og eftir að þeir viðkvæmustu hafa verið bólusettir, um 20% landsmanna. Aldursdreifing á dauðsföllum per smit hjá CDC er í takt við niðurstöður að ofan.

Ef hver sá sem smitast af SARS-COV-2 smitar tvo einstaklinga, og þúsund manns smitast, þá áætlar CDC að 0,156 einstaklingar undir 50 ára aldri myndu láta lífið.
Ath. að þetta er reiknað aðeins öðruvísi en dánartíðni per smit að ofan, en gefur hugmynd um þá litlu hættu sem ungu fólki stafar af veirunni.

CDC áætlar hins vegar að 83,1 milljón manna hafi smitast í Bandaríkjunum árið 2020. Miðað við ofangreinda áætlun og R0 = 2, þá hefðu um 500 börn átt að láta lífið. Staðfest andlát barna, sem hafa verið bendluð við Covid, eru hins vegar 226 (28. mars 2021). CDC tekur fram að þessar tölur séu ekki ætlaðar til þess að spá fyrir um fjölda dauðsfalla, heldur til þess að áætla álag og hjálpa heilbrigiðsstofnunum þar í landi að skipuleggja sig. En ef þetta er notað til að áætla hve margir hefðu átt að láta lífið, þá hafa þeir ofmetið hættuna fyrir börn, nema sóttvarnaraðgerðir, bólusetningar og ónæmi með aðstoð náttúrulegrar sýkingar hafi lækkað smitstuðulinn enn frekar og dregið þannig úr fjölda dauðsfalla.

Dánartíðni barna

Í Bretlandi hefur breska afbrigðið ráðið ríkjum og smit verið útbreidd þrátt fyrir linnulausar tilraunir þeirra til að draga úr smitum með ströngum sóttvarnaraðgerðum. Í Englandi & Wales hafa 14 einstaklingar undir fjórtán ára aldri látist eftir að hafa smitast af Covid, en árið 2020 létust um 3200 börn á þessum aldri í löndunum tveimur, svo dauðsföll tengd Covid eru mjög lítið hlutfall og ætti ekki að vera þeirra stærsta áhyggjuefni (ONS, sótt 28. mars 2021). Samanlögð höfðatala þessara tveggja landa er um 59 milljónir, en Íslendingar eru um 360 þúsund. Til samanburðar, ef það hefðu verið jafn mörg smit á Íslandi eins og í Englandi & Wales miðað við höfðatölu, og aldursdreifing og dánartíðni hefði verið svipuð hérlendis og þar, þá er líklegt að færri en 0,09 börn hefðu dáið hérlendis.

Í Svíþjóð hefur breska afbrigðið verið útbreitt, en Svíar hafa gert minni tilraunir en aðrar þjóðir til að hefta útbreiðslu veirunnar. Höfðatala Svíþjóðar er um 10,4 milljónir og þar hafa 12 einstaklingar undir 20 ára aldri látið lífið eftir að greinast með veiruna (24. mars 2021). Fært yfir á íslenska höfðatölu, þá væru það um 0,42 börn.

Í Bandaríkjunum hafa 226 andlát meðal fólks undir 18 ára aldri verið bendluð við Covid síðan faraldurinn hófst fyrir um það bil ári síðan. Þar af hafa 140 börn undir 14 ára aldri látið lífið í kjölfar þess að greinast með Covid (28. mars 2021). Í Bandaríkjunum hafa smit einnig verið útbreidd þrátt fyrir lokanir skóla og linnulausar tilraunir til að hefta útbreiðslu veirunnar, en CDC áætlar að fjórðungur Bandaríkjamanna hafi smitast af Covid árið 2020. Fært yfir á íslenska höfðatölu þá væru þetta 0,15 börn undir 14 ára aldri. 

Í Bandaríkjunum láta fleiri börn lífið af völdum flensu á ári hverju en létust af völdum Covid síðastliðið ár,
þrátt fyrir að fleiri hafi smitast af Covid síðastliðið ár en smitast árlega af flensu.

Til samanburðar voru yfir 400 andlát meðal barna undir 18 ára aldri bendluð við flensu á hverju flensutímabili síðustu þrjú árin áður en Covid faraldurinn skall á, samkvæmt CDC. Þetta er raunin þrátt fyrir að aðeins um 40 milljónir manna hafi veikst af flensu á hverju flensutímabili, en 70 milljónir hafi veikst af Covid síðastliðið ár, og þrátt fyrir að áætlaður fjöldi andláta vegna flensu fyrir alla aldurshópa hafi verið um 40 þúsund á ári að meðaltali, en 550 þúsund vegna Covid síðastliðið ár. Það er því ljóst að Covid hefur verið dánarmein færri barna síðastliðið ár en flensa er á ári hverju, og að þó talsvert færri smitist af flensu á ári hverju og þó hún dragi talsvert færri til dauða, þá stafar börnum mun meiri hætta af flensu en af Covid. Athugum þó að flensutímabilið er frá október til maí, þó CDC telji sjálfsagt þau fáu dauðsföll sem gætu átt sér stað vegna flensu yfir sumartímann með í annað hvort tímabilið. Þetta Covid tímabil er hins vegar frá febrúar 2020 til mars 2021, rúmlega eitt ár. Athugum að þó dánartíðni af völdum Covid sé lægri en af völdum flensu meðal barna, þá er sagan önnur hjá fullorðnum, sérstaklega langveikum og öldruðum.

Önnur dánarmein

Dánartíðni er viðkvæmt viðfangsefni, en þó er dauðinn náttúrulegur hluti af hringrás lífsins. Helst myndum við vilja koma í veg fyrir öll dauðsföll, en staðreyndin er sú að á ári hverju látast tæplega 60 milljónir manna á heimsvísu. Á síðastliðnu ári hafa 2,8 milljón andlát verið bendluð við Covid, eða tæplega 4,7% allra andláta. Á Íslandi deyja rúmlega 2000 manns á ári, en síðastliðið ár voru einungis 30 andlát bendluð við Covid hérlendis, eða innan við 1,5% allra andláta. Í baráttunni við dánarmeinið Covid þá höfum við staðið okkur vel, og með bólusetningu aldraðra og þeirra sem eru í áhættuhópi er sú barátta senn á enda. Covid er þó ekki eina dánarmein Íslendinga. 98,5% fólks síðastliðið ár dó af öðrum orsökum. Mörg andlátanna er óviðráðanleg, en flest tengjast þau lífsstílum okkar og kyrrsetu. Á hverju ári deyja rúmlega 10 manns í umferðinni á Íslandi, þar af mikið af ungu fólki. Um eða yfir 30 manns undir 65 ára aldri falla vísvitandi fyrir eigin hendi á hverju ári, og álíka margir í viðbót af völdum lyfjamisnotkunar. Alkohóllifrarsjúkdómur dró líka tuttuga og eina manneskju undir 65 ára aldri til dauða á árunum 2015-2019 (Hagstofa Íslands). Píeta samtökin greindu frá því að fjöldi sjálfsvíga fram að ágúst 2020 hafi verið farinn að nálgast árlegan fjölda síðustu ára, sem bendir til allt að 67% aukningar, þó endanlegar niðurstöður ársins liggi ekki fyrir. Jafnvel þó það komi í ljós að það hafi ekki verið mikil aukning á síðasta ári, hvernig verður það næsta vetur ef fólk verður þvingað til þess að halda áfram að einangra sig og sitja heima? Hver verða áhrifin til komandi ára ef landið heldur áfram að skuldsetja sig? Allt eru þetta dánarmein sem eiga meiri athygli skilið en Covid þegar það kemur að því að vernda líf ungs fólks, og ber að hafa í huga þegar kemur að því hve langt skal ganga til að takmarka útbreiðslu Covid í samfélaginu þegar búið er að bólusetja þá sem er í áhættuhópi.

Dánartíðni barna er enn viðkvæmara viðfangsefni, enda andlát barns, hvað þá okkar eigin barns, eitt það versta sem við getum hugsað okkur. Sökum vísindalegra framfara og efnahagslegrar velgengni er dánartíðni barna sem betur fer lág á Vesturlöndum, en þó deyja börn því miður stundum, og stundum óhjákvæmilega. Á Íslandi deyja að meðaltali um 20 manneskjur undir tvítugu á ári hverju. Árin 2015-2019 létust sextán táningar á Íslandi af völdum vísvitandi sjálfsskaða, og níu í viðbót af völdum eitrunar sem tengdust fíkniefnum og öðrum lyfjum, samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands. Sjálfsvíg og misnotkun lyfja eru stærstu dánarmein barna og unglinga, ekki Covid. Aðgerðir gegn Covid ýta hins vegar undir einangrun, kyrrsetu, inniveru, kvíða og fátækt, og allt mun þetta leggja fleiri ung líf í hættu.

Ef markmiðið er að vernda börn, heilsu þeirra og líf, þá þarf að hvetja þau til heilbrigðs lífernis og íþróttaiðkunnar, verja tíma með þeim og virkja æskulýðsstarf barna. Hreysti og góð heilsa mun vernda börn frá Covid sem og öðrum dánarmeinum, en offita og sykursýki fyrirfinnast líka meðal barna og eru vissulega áhættuþáttir þegar kemur að Covid, þó áhættan sé lítil fyrir börn. Allt er þetta skynsamlegra en að loka börnin inni í von um að stöðva þau frá því að komast í samneyti við kórónuveiru sem veldur þeim vægum eða engum veikindum, en börn veikjast iðulega oft á ári af veirum sem eru verri fyrir þau en Covid, og telst það vera eðlilegur hluti af lífinu. 

Stundum er ungt fólk með ólæknandi sjúkdóma, stundum sýkjast börn af veirum og fá lungnabólgu sem leiðir til andláts, og stundum smitast ung manneskja með undirliggjandi sjúkdóm af smitsjúkdómi. Því miður er ekki hægt að koma í veg fyrir öll slík tilvik. Ef meiri kostnaður og vinna væri lögð í að greina og lækna sjúkdóma, og ef meira væri lagt í fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir öll smit og slys, þá væri sjálfsagt hægt að koma í veg fyrir einhver andlát. Fyrirbyggjandi aðgerðir við Covid eins og félagsleg einangrun, grímunotkun, hræðsluáróður og sýklafælni hafa hins vegar í för með sér aðrar heilsufarslegar afleiðingar, hvort sem þær eru andlegar eða líkamlegar. Kostnaðinum fylgir að það þarf að vera samdráttur annars staðar, sem getur skilað sér í öðrum andlátum og í skertum lífskjörum margra. Ef mörg börn á Íslandi smitast af Covid, þá er möguleiki að einhver þeirra muni láta lífið, en líkurnar fyrir sérhvert barn eru mjög litlar. Fórnirnar og kostnaðurinn við að koma í veg fyrir öll smit þar til veirunni verður útrýmt er hins vegar gífurlegur, og líklegur til að skila sér í margfalt fleiri dauðsföllum og valda mörgum fjölskyldum og börnum varanlegum skaða. Efnahagslegu áhrifin munu hafa áhrif á heilbrigðiskerfið, menntakerfið, fjölskyldur og börn til komandi ára. Þetta snýst því ekki um líf eða ekki líf, heldur um líf hér eða líf þar. Spyrja má hvort því fjármagni sem er varið í vernda fólk frá Covid gæti ekki komið í veg fyrir fleiri ótímabær dauðsföll ef því væri úthlutað í annað. Samfélagið verður því að velja og hafna, en það er enginn vafi á að sóttvarnaraðgerðir munu valda fleiri börnum meiri skaða en Covid getur gert. Engu ríki hefur tekist að vernda heilsu, hvað þá líf, borgara sinna með því að verða fátækara.

Hvað er framundan?

Í reglugerð um bólusetningar á Íslandi má sjá að heilbrigðisyfirvöld eru sammála því að ofangreindum hópum stafar mest ógn af Covid, því eftir að þeir sem eru yfir sextugu og þeir sem eru haldnir undirliggjandi langvinnum sjúkdómum hafa verið bólusettir, þá er stefnt að því að bjóða almenningi bóluefni, þó byrjað verði á starfsfólki í skólum og starfsfólki í efnahagslega erfiðum stöðum rétt á undan almenningi. Hópur fólks með undirliggjandi langvinna sjúkdóma er ansi breiður samkvæmt skilgreiningu Landlæknisembættisins, en undir hann falla meðal annars þeir sem eru með krabbamein, hjarta-, lungna- og taugasjúkdóma, sykursýki, offitu og kæfisvefn, háþrýsting, geðraskanir.

Miðað við bólusetningardagatal sem gefið er út af Heilbrigðisráðuneytinu verður stefnt að því að ljúka bólusetningu fólks sem er í áhættuhópi í lok maí 2021. Vonandi verða foreldrar barna með langvinna undirliggjandi sjúkdóma hvattir til að bólusetja sig á undan öðrum, en bólusetning barna gegn veirunni er ekki hafin. Það sama á svo við um aðstandendur annarra sem eru viðkvæmir en geta ekki þegið bólusetningu. Bólusetning aðstandenda er líkleg til að veita þeim sem eru viðkvæmir en geta ekki sjálfir þegið bóluefni einhverja vörn, en bráðabirgðaniðurstöður úr rannsókn frá Ísrael sýnir fram á mikinn samdrátt í smitum, hjá þeim sem hafa verið bólusettir með Pfizer bóluefninu, samanborið við þá sem hafa ekki verið bólusettir (Aran, 2021). Bráðabirgðarniðurstöður úr rannsókn frá CDC gefa einnig til kynna að þeir sem eru bólusettir með Pfizer og Moderna bóluefnunum séu ólíklegir til að smitast og bera smit, en AstraZeneca virðist veita minni vörn gegn smiti þó það verndi vel gegn alvarlegum veikindum og dauða. Ef bólusettir eru ólíklegir til að smitast, þá eru þeir einnig ólíklegir til að bera smit, en jafnvel þó þeir smitist er ekki víst að þeir séu líklegir til að smita út frá sér.

Með bólusetningu þeirra sem eru í áhættuhópi verður baráttan við dánarmeinið Covid sigruð, og faraldurinn orðinn hættulaus að mestu. Íþyngjandi sóttvarnaraðgerðir verða ekki bara óþarfar heldur óréttlætanlegar, því skaði þeirra er svo gífurlegur. Í upphafi sumars verður hægt að afnema íþyngjandi sóttvarnaraðgerðir og opna landið. Að sjálfsögðu höldum við áfram að sinna einstaklingsmiðuðum sóttvörnum meðan við bólusetjum fólk í sumar og fram á haust, og þeir sem eru óbólusettir og óttast ennþá sýkingu geta farið extra varlega og forðast samkomur þar til þeim verður boðin bólusetning, eins og þeir hefðu gert ef núverandi sóttvarnaraðgerðir væru ennþá í gildi. Það er hins vegar engin ástæða til að halda áfram íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum vegna þess að hingað gæti borist veira sem er nánast ófær um að draga þá sem ekki verða bólusettir til dauða. Með því að opna landið og leyfa veirunni að berast hingað í sumar, og leyfa nokkrum að smitast, þá getum við flýtt fyrir því að við byggjum upp hjarðónæmi, bjargað sumrinu og dregið úr áhrifum yfirvofandi efnahagshruns. Nokkur smit meðal ungs og heilsuhrausts fólks eru ólíkleg til að valda miklum skaða. Hættan er að líða hjá og við sjáum loksins fyrir endann á þessum faraldri.

Heimildir

Ionnidis, John P. A. Infection fatality rate of COVID-19 inferred from seroprevalence data. Bulletin of the World Health Organization. 2020 Oct. 14. https://www.who.int/bulletin/online_first/BLT.20.265892.pdf

Gudbjartsson DF, Norddahl GL, Melsted P et al. Humoral Immune Response to SARS-CoV-2 in Iceland. N Engl J Med. 2020 Oct 29;383(18):1724-1734. doi: 10.1056/NEJMoa2026116. Epub 2020 Sep 1. PMID: 32871063; PMCID: PMC7494247.

Challen R, Brooks-Pollock E, Read J M, Dyson L, Tsaneva-Atanasova K, Danon L et al. Risk of mortality in patients infected with SARS-CoV-2 variant of concern. 202012/1: matched cohort study BMJ 2021; 372 :n579 doi:10.1136/bmj.n579.

Davies NG, Jarvis CI; CMMID COVID-19 Working Group, Edmunds WJ, Jewell NP, Diaz-Ordaz K, Keogh RH. Increased mortality in community-tested cases of SARS-CoV-2 lineage B.1.1.7. Nature. 2021 Mar 15. doi: 10.1038/s41586-021-03426-1. Epub ahead of print. PMID: 33723411.

O’Driscoll, M., Ribeiro Dos Santos, G., Wang, L. et al. Age-specific mortality and immunity patterns of SARS-CoV-2. Nature 590, 140–145 (2021). https://doi.org/10.1038/s41586-020-2918-0

Ghisolfi S, Almås I, Sandefur JC, et al. Predicted COVID-19 fatality rates based on age, sex, comorbidities and health system capacity. BMJ Global Health 2020;5:e003094. https://gh.bmj.com/content/bmjgh/5/9/e003094.full.pdf

Aran, Dvir. Estimating real-world COVID-19 vaccine effectiveness in Israel using aggregated counts. medRxiv 2021.02.05.21251139; doi: https://doi.org/10.1101/2021.02.05.21251139.

Tengiliðir

Dr. Jón Ívar Einarsson, jeinarsson@bwh.harvard.edu

Sigríður Á. Andersen, saa@althingi.is

Þorsteinn Siglaugsson, thorsteinn.siglaugsson@insead.edu

Erling Ó. Kristjánsson, erlingoskar@tutanota.com