Efnahagsáhrif sóttvarnaraðgerða

Apríl 2021

Efnahagsleg áhrif af lokunum og ferðatakmörkunum sem gripið hefur verið til vegna Covid-19 eru meiri hérlendis en í flestum öðrum löndum. Samkvæmt skýrslu starfshóps Fjármálaráðuneytis sem út kom í janúar er reiknað með að áhrifin nemi um 8,1% af landsframleiðslu á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Sé reiknað með viðvarandi lokunum á þessu ári er ljóst að langt getur liðið þar til efnahagslífið réttir úr kútnum.

  • En hvað merkja þessi 8%? 
  • Hvaða máli skipta svona tölur fyrir mig? 
  • Er þetta ekki bara eitthvað sem stjórnmálamenn leysa?
  • Og hvað orsakar í raun og veru samdráttinn?

Þegar kórónafaraldurinn hófst var gripið til tvenns konar aðgerða til að reyna að stemma stigu við útbreiðslunni. Annars vegar lokuðust landamæri, í hverju landinu á fætur öðru, ekki vegna þess að fólk hætti að ferðast heldur vegna þess að ríkisstjórnir tóku, hver um sig, að reyna að hindra að smit bærust inn fyrir landamærin. Hins vegar var tekið til við að loka verslunum, þjónustufyrirtækjum, skólum og tómstundastarfi, jafnvel beita útgöngubönnum og stofufangelsi, til að reyna að hindra samskipti milli fólks í þeirri trú að það hægði á útbreiðslu pestarinnar. Hérlendis voru lokanir innanlands ekki jafn harðar og í mörgum öðrum löndum. Takmarkanir á landamærum voru hins vegar miklar, fyrst vegna almennra ferðabanna og síðar vegna einhliða ákvörðunar Íslands um að gera ferðamönnum í raun ókleift að koma til landsins.

Hrun ferðaþjónustunnar og atvinnuleysið

Áður en faraldurinn hófst skilaði ferðaþjónusta 38% útflutningstekna Íslands, þannig að nærri fjórar af hverjum tíu krónum sem útflutningur skilaði komu frá ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan stóð að baki 8% landsframleiðslunnar, þ.e.a.s. 8% þess sem var keypt og selt í landinu tilheyrði þessari atvinnugrein. Við ferðaþjónustu og afleidd störf unnu jafnframt tugir þúsunda. Stöðvun á streymi erlendra ferðamanna á meginsökina á því atvinnuleysi sem við glímum nú við.

Atvinnuleysi mældist síðast 12,5% í febrúar 2021. Í janúar 2020 var atvinnuleysi 4,8%. Það er því 2,6 sinnum meira en fyrir ári síðan. Samtals eru nú tæplega 26.000 manns án vinnu að öllu leyti eða að hluta, en 16.000 þeirra misstu vinnuna síðastliðið ár. Atvinnuleysi hefur grafalvarlegar afleiðingar. Það leiðir til versnandi heilsufars og samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn má reikna með um 20 ótímabærum dauðsföllum fyrir hvert þúsund sem verður atvinnuleysi að bráð (Bianchi & Song, 2020). Þessi áhrif koma vitanlega ekki strax fram, en þau koma fram og til þeirra verður að taka tillit.

Önnur bandarísk rannsókn sýnir að dánarlíkur atvinnulausra séu 63% hærri en annarra (Roelfs et al, 2011). Sterkara velferðarkerfi gæti dregið eitthvað úr þessum áhrifum. Sænsk rannsókn bendir til dæmis til þess að þar sé dánarhlutfall atvinnulausra að jafnaði 37% hærra en annarra (Stefansson, 1991). Sé mið tekið af þessu mætti áætla að atvinnuleysi vegna sóttvarnaraðgerða gæti leitt af sér 190-320 ótímabær dauðsföll meðal fólks á besta aldri. Þar sem meðalaldur þeirra sem verða atvinnuleysi að bráð er langtum lægri en meðalaldur þeirra sem deyja af Covid smiti er ljóst að töpuð lífár eru mun fleiri en ef beitt væri markvissum aðgerðum til að vernda viðkvæma hópa meðan pestin gengi yfir (Baldursson, 2020). Atvinnuleysi hefur nefnilega ekki aðeins fjárhagsleg áhrif á þá sem fyrir því verða. Atvinnuleysi er alvarlegt andlegt áfall sem leiðir til vonleysis, streitu og versnandi sjálfsmyndar (Goldsmith & Diette, 2012). Þessi andlegu áhrif hafa svo líkamlegar afleiðingar. Mataræði versnar, drykkja og ofnotkun fíkniefna vex, fólk verður hirðulausara um eigin heilsu. Þetta leiðir af sér hjartasjúkdóma, heilablóðföll, margvíslega aðra lífstílssjúkdóma og svo vitanlega sjálfsvíg. Til þess að lágmarka líkurnar að þetta aukna atvinnuleysi skili sér í ótímabærum dauðsföllum er brýnt að snúa við þessari þróun sem allra fyrst. 

Kostnaður hins opinbera vegna atvinnuleysis er svo vitanlega umtalsverður og felst bæði í beinum kostnaði vegna fjárhagsaðstoðar, töpuðum tekjum og auknum kostnaði vegna verra heilsufars, en rannsóknir sýna að heilsufar meðal atvinnulausra er um 10% verra en meðal þeirra sem hafa vinnu (Norström et al, 2019).

Hvað merkir 1140 milljarða tjón hins opinbera?

Til að átta sig á áhrifum sóttvarnaráðstafana á afkomu hins opinbera liggur beint við að bera saman fjármálaáætlun 2019-2023 annars vegar og hins vegar áætlanirnar 2021-2025 og 2022-2026, ásamt áætlaðri afkomu síðasta árs. Þannig má fá samanburð áranna 2020-2023. Þegar þetta er skoðað sést að breytingin á áætlaðri afkomu hins opinbera á þessum fjórum árum er neikvæð um 1140 milljarða króna.

Í stað þess að hagnast um 400 milljarða, þá safnar hið opinbera skuldum sem nema 740 milljörðum.
Kostnaðurinn mun fylgja okkur til margra ára og bitna á komandi kynslóðum.

Hvað merkir þetta í samhengi við tekjur og gjöld? Árið 2019 voru heildartekjur hins opinbera tæplega 1280 milljarðar króna. Þetta merkir að á fjórum árum nemur tjónið tæplega öllum heildartekjunum í eðlilegu árferði. Skipt jafnt á þessi fjögur ár nemur tjónið því tæpum fjórðungi af tekjum hvers árs.

1140 milljarðar er tala sem við eigum flest erfitt með að tengja við. Setjum þetta því í annað samhengi. Hugsum okkur fjölskyldu sem hefur ráðstöfunartekjur, tekjur eftir skatta, upp á 700.000 á mánuði. Þessar tekjur duga fyrir heimilisútgjöldum, húsnæðiskostnaði og öðru sem á þarf að halda og kannski er einhver örlítill afgangur. Hugsum okkur nú að tekjur heimilisins dragist saman um fjórðung í fjögur ár. Í stað 700.000 króna á mánuði hefur fjölskyldan nú aðeins úr tæplega 525.000 krónum að spila. Við getum flest sett okkur í þessi spor. Hvað gerir þessi fjölskylda? Minnkar við sig húsnæði? Fer að borða ódýrari og óhollari mat? Tekur börnin úr tómstundastarfi? Frestar eða sleppir dýrum læknisaðgerðum? Lógar hundinum?

Hugsum okkur svo fjölskyldu með eina fyrirvinnu á lágum launum eða atvinnuleysisbótum. Ráðstöfunartekjurnar kannski 250.000 á mánuði. Hvað þýðir fjórðungs lækkun tekna fyrir þessa fjölskyldu, sem þegar er verulega aðþrengd? Hún þýðir aðeins eitt. Hún þýðir færri máltíðir á dag, fleiri ferðir til Fjölskylduhjálparinnar, enn ömurlegri aðstæður fyrir börnin, verri andlega og líkamlega heilsu, lakari framtíðarmöguleika barnanna. Eigum við að halda áfram?

Það skiptir máli þegar afkoma hins opinbera versnar um 1140 milljarða á fjórum árum. Þessir 1140 milljarðar sem tapast vegna tilraunar til að hefta útbreiðslu farsóttarinnar eru fjármunir okkar allra. Þetta tap snertir okkur öll. Áætlað er að bygging nýs Landspítala kosti 55 milljarða króna svo dæmi sé nefnt. Fyrir það fé sem tapast vegna sóttvarnaraðgerðanna mætti byggja 21 nýjan Landspítala. Þetta sýnir glöggt hversu alvarlegar afleiðingarnar eru fyrir sameiginlega sjóði okkar.

Tjónið vegna sóttvararaðgerða samsvarar rúmlega tuttugu nýjum Landspítölum, eða 16 Borgarlínum eða Sundabrautum.

Ríkið heldur uppi sameiginlegri grunnþjónustu samfélagsins, heilbrigðiskerfi, menntakerfi og velferðarþjónustu. Þegar afkoma versnar jafn mikið og hér er um að ræða getur ríkið skorið niður, aukið skattlagningu, eða aukið lántökur sínar. Með niðurskurði skerðist þjónusta. Skerðing á þjónustu þýðir til dæmis að fólk fær lélegri heilbrigðisþjónustu. Lélegri heilbrigðisþjónusta kemur niður á heilsufari og lífslíkum í samfélaginu. Ef við lítum aftur á Fjármálaáætlun 2019-2023 má sjá að tæplega eitt þúsund milljarðar voru þá áætlaðir til heilbrigðiskerfisins árin 2020-2023. Væri niðurskurði í heilbrigðiskerfinu einu beitt til að mæta tjóninu þýddi það meira en fjórðungs samdrátt til málaflokksins á þessu tímabili. Lántökur þýða að vaxtakostnaður ríkisins eykst. Og því skuldsettara sem ríkið er, þeim mun lakari eru kjörin og vextirnir því hærri. Þær hindra hins vegar ekki niðurskurð heldur fresta honum. Skattahækkanir lækka ráðstöfunartekjur fólks og takmörk eru fyrir því hversu háir skattar geta orðið.

Aðgerðirnar eða veiran sjálf?

En er réttlætanlegt að kenna aðgerðunum um? Er orsökin ekki faraldurinn sjálfur? Leggst ekki allt efnahagslíf sjálfkrafa í dróma þegar „drepsótt“ gengur yfir heiminn?

Árið 1968 gekk illvígur flensufaraldur yfir heiminn. Talið er að á bilinu ein til fjórar milljónir hafi látist úr pestinni. Mannkynið var þá þrír og hálfur milljarður, en í tæplega átta milljarðar. Ef miðað er við mat WHO á dánarhlutfalli Covid-19 frá því í október á síðasta ári má búast við að án tilkomu bóluefna eða einhverra árangursríkra sóttvarnaraðgerða myndu um 6 milljón manns látast úr Covid áður en ónæmi væri náð [*]. Ef meðaltal er tekið af fjölda dauðsfalla 1968 er því dánarhlutfallið litlu lægra.

En þegar hagtölur frá 1968 og 1969 eru skoðaðar verður þess ekki vart að faraldurinn hafi haft nein merkjanleg áhrif á efnahagslífið [1]. Það varð enginn stórfelldur efnahagssamdráttur, hundruð milljóna töpuðu ekki lífsviðurværinu, nám og framtíð barna og ungmenna var ekki sett í uppnám. Hvers vegna? Jú, vegna þess að 1968 lét enginn sér til hugar koma að bregðast við flensufaraldri með jafn ofsafengnum hætti sem nú hefur verið gert.

Faraldurinn 1957 var ekki jafn illvígur, en þó varð hann 1-2 milljónum manna að bana. Eins og 1968, var ekki heldur brugðist við með þeim hætti sem nú hefur verið gert, enda ekki að merkja nein sérstök efnahagsáhrif þess faraldurs [2]. Af þessu er ljóst að faraldur af þessum toga veldur engum stórfelldum efnahagsáhrifum einn og sér. Það eru aðgerðirnar sem ætlað er að reyna að hægja á útbreiðslu hans sem valda þessum áhrifum.

Það mun taka langan tíma fyrir efnahagslífið að rétta úr kútnum. Við megum búast við verulegri skuldasöfnun, skattahækkunum og niðurskurði á opinberri þjónustu. Skattahækkanir rýra lífskjör allra. Þær, ásamt niðurskurði koma verst við það fólk sem verst stendur efnahagslega.

Það hefur ávallt legið fyrir að lokanir og ferðabönn voru ekki eini valkosturinn. 1140 milljarða tjón ríkissjóðs var ekki eini valkosturinn. Hinn valkosturinn var, og er, að verja þá sem raunverulega eru í hættu meðan faraldurinn gengur yfir. Erfitt, dýrt, segja margir. En hversu stóru hlutfalli af milljörðunum 1140 hefði nú þurft að verja til að gera þetta af verulegum myndarskap? Einu prósenti? Tveimur prósentum? Dæmi hver fyrir sig. 

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að í lok maí er stefnt að því að ljúka bólusetningu þeirra sem eru í áhættuhópi við Covid. Í kjölfar þess verður engin ástæða til þess að halda áfram þessum kostnaðarsömu sóttvarnaraðgerðum, því öðru fólki stafar lítil sem engin hætta af veirunni, og réttlætir sú litla hætta engan veginn áframhald þessara kostnaðarsömu aðgerða. Það er áríðandi að landinn geri sér grein fyrir þessu sem fyrst svo hægt verði að skipuleggja afnám sóttvarnaraðgerða og opnun landsins í sumar. Efnahagurinn verður að fá tækifæri til að ná sér aftur á strik og skuldasöfnun ríkisins verður að linna. Engu ríki hefur tekist að vernda heilsu, hvað þá líf, borgara sinna með því að gerast fátækara. Ísland verður fátækara með hverjum deginum sem líður í því lokaða hagkerfi sem okkur hefur verið búið síðasta árið. Það er ekki hægt að skuldsetja komandi kynslóðir enn frekar til að vernda okkur frá faraldri sem við erum búin að sigrast á. Sumarið er tíminn til að koma okkur út úr þessu sjálfskaparvíti og hefja uppbyggingu samfélagsins á ný.

Heimildir

Francesco Bianchi, Giada Bianchi & Dongho Song. The Long-Term Impact of the COVID-19 Unemployment Shock on Life Expectancy and Mortality Rates. 2020 Dec. https://www.nber.org/papers/w28304

David J. Roelfs, Eran Shor, Karina W. Davidson, Joseph E. Schwartz. Losing life and livelihood: A systematic review and meta-analysis of unemployment and all-cause mortality. Social Science & Medicine, Volume 72, Issue 6, 2011, Pages 840-854, ISSN 0277-9536, https://doi.org/10.1016/j.socscimed.2011.01.005.

Stefansson CG. Long-term unemployment and mortality in Sweden, 1980-1986. Soc Sci Med. 1991;32(4):419-23. doi: 10.1016/0277-9536(91)90343-b. PMID: 2024157.

Friðrik Már Baldursson, Kórónuveiran og kynslóðirnar, Vísbending 36. tbl. 2020.

Arthur Goldsmith & Timothy Diette. Exploring the link between unemployment and mental health outcomes. American Psychological Association. 2012 April. https://www.apa.org/pi/ses/resources/indicator/2012/04/unemployment

Norström, F., Waenerlund, AK., Lindholm, L. et al. Does unemployment contribute to poorer health-related quality of life among Swedish adults?. BMC Public Health 19, 457 (2019). https://doi.org/10.1186/s12889-019-6825-y

[*] WHO áætlaði að 10% jarðarbúa væru búnir að smitast í október 2020, en ein milljón manns höfðu látið lífið úr Covid á þeim tímapunkti. Hér er gert ráð fyrir að 60% jarðarbúa smitist áður en hjarðónæmi verði náð.

[1] The 1960s Business and the Economy: Overview. U*X*L American Decades. Retrieved April 01, 2021 from Encyclopedia.com: https://www.encyclopedia.com/social-sciences/culture-magazines/1960s-business-and-economy-overview

[2] Economic Report of the President. Chapter 2: The American Economy in 1957. Published: 1958. https://fraser.stlouisfed.org/files/docs/publications/ERP/1958/ERP1958_Chapter2.pdf

Tengiliðir

Dr. Jón Ívar Einarsson, jeinarsson@bwh.harvard.edu

Sigríður Á. Andersen, saa@althingi.is

Þorsteinn Siglaugsson, thorsteinn.siglaugsson@insead.edu

Erling Ó. Kristjánsson, erlingoskar@tutanota.com