Langvarandi Covid

Apríl 2021

Samantekt

  • Í október 2020 áætlaði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, að um 10% jarðarbúa hefðu smitast af SARS-COV-2. Eftir veturinn er sú tala sennilega vel á annan milljarð. Það er ljóst að margir sem smitast af Covid fá ekki greiningu. Þetta fólk fær gjarnan væg eða engin einkenni, og er undanskilið úr rannsóknum um tíðni á langvarandi Covid.
  • Rannsóknir sýna að 2-14% þeirra sem greinast með Covid upplifi einhver langvarandi einkenni í 12 vikur, en þessi einkenni eiga það til að vera væg. Slæm tilfelli eru talsvert sjaldgæfari.
  • Það er oft villandi að hópa mörg ólík einkenni saman, því ef 5% greina frá einu einkenni og önnur 5% greina frá einhverju öðru, þá er sagt að 10% fólks greini frá langvarandi einkennum.
  • Sumir lýsa sambærilegum einkennum þótt þeir hafi aldrei fengið Covid.
  • Það er ekki óeðlilegt að vera slappur í kjölfar veirusýkingar eða veikinda almennt. Líkaminn getur verið lengi að jafna sig, sérstaklega eftir að sigrast á nýrri veiru sem er að sumu leyti ólík öðrum veirum sem við erum vön að smitast af. Það er mikilvægt að hugsa vel um heilsuna og halda ró sinni.
  • Röklaus ótti við Covid getur haft slæm áhrif á andlega heilsu fólks, sérstaklega þegar það smitast.
  • Það er þó ljóst að einhverjir upplifa slæm einkenni í kjölfar Covid sýkingar. Þetta fólk hefur fulla samúð okkar og það er mikilvægt að hlúa vel að þessu fólki og stuðla að endurhæfingu þeirra. Vandinn er þó sá að þessi tilfelli fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum, sem láta þau virðast algengari en þau eru.

Hér má lesa greinina okkar um rannsókn Íslenskrar Erfðagreiningar á langvarandi Covid, en greinin var birt í Morgunblaðinu 11. maí 2021. Rannsóknin leiddi m.a. í ljós að fólk sem veikist lítið er mjög ólíklegt til að fá langvarandi einkenni, en það er útlit fyrir að Covid veikindin útskýri langvarandi einkenni í um 4% þeirra sem veiktust lítið. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni fá 80% þeirra sem smitast af SARS-CoV-2 væg eða engin einkenni. Það er vel þekkt hverjir veikjast illa; það er eldra fólk og fólk með undirliggjandi áhættuþætti. Ungt og heilbrigt fólk þarf því ekki að hafa miklar áhyggjur af langvarandi Covid ef það skyldi sýkjast.

Næstu skref

Áætlaður lestími fyrir þessa grein er 10-15 mínútur.

Samantekt greinarinnar inniheldur helstu punktana, en greinin útskýrir sérhvert atriði betur, fer nánar út í suma þætti, og fjallar um heimildirnar og rannsóknirnar sem leiða þessar niðurstöður í ljós. Langvarandi Covid er viðkvæmt viðfangsefni, svo við hvetjum fólk til þess að lesa greinina í heild sinni. Engu að síður þá kjósa sumir lesendur að lesa samantektina og færa sig svo yfir í aðrar greinar sem eru styttri.

Óvissa og ringulreið einkennir enn umræðuna í kringum langvarandi Covid. Í fréttum virðist þetta vera gríðarlega algengt og alvarlegt. Þar sem sjúkdómsgreiningar byggja oft á upplifunum einstaklinga frekar en á niðurstöðum úr læknisrannsóknum á líkamlegu ástandi þeirra, þá er þetta viðkvæmt og vandmeðfarið málefni. Mismunandi upplifanir eru allar settar undir sama hatt, og engin tilraun er gerð til að greina á milli fjölmargra sem hafa skert lyktarskyn, þeirra sem þurfa á endurhæfingu að halda eftir alvarleg veikindi og spítalaainnlagnar, og fáeinna sem veiktust ekki illa en virðast samt eiga erfitt með að sinna daglegum verkum í kjölfar sýkingar. Í rannsóknum um tíðni er gjarnan nóg að einstaklingur sé með skert lyktarskyn í kjölfar Covid sýkingar, til þess að hann sé stimplaður með langvarandi Covid – enda er hann vissulega með langvarandi einkenni Covid, þó þetta tiltekna einkenni sé tiltölulega saklaust. Tíðnin er svo birt í fréttum, og almenningi talin trú um að stórt hlutfall fólks þjáist, þó einkennin séu gjarnan væg. Í þessari grein verður gerð tilraun til að útskýra langvarandi Covid og hvað það er sem hefur áhrif á umræðuna. Farið verður yfir niðurstöður úr vísindalegum rannsóknum á langvarandi Covid með áherslu á rannsóknir á tíðni þessa fyrirbæris.

Umræðan og skilgreiningar

Langvarandi Covid er orðasamband sem notað er um þau einkenni sem fólk greinir frá í kjölfar Covid sýkingar. Einstaklingar greina frá mismörgum og mismunandi einkennum, og í mislangan tíma. Í almennri umræðu og fréttum getur skilgreiningin á því hvað flokkast undir „langvarandi“ verið allt frá þremur vikum upp í þrjá mánuði eða lengra.

Einkenni geta verið margvísleg. Skert bragð- og lyktarskyn er nokkuð algengt, og meðfylgjandi gjarnan skortur á matarlyst. Þreyta, hósti og mæði koma fáum á óvart í kjölfar veirusýkingar sem ertir lungu fólks. Einhverjir greina líka frá vöðva- og höfuðverkjum, og færri frá heilaþoku og einbeitingarskorti. Svo hafa magaverkir, niðurgangur, uppköst, vanlíðan og depurð stundum einnig verið bendluð við langvarandi Covid. Út frá lýsingum einstaklinga má í raun sjá að hvaða einkenni sem er getur verið bendlað við langvarandi Covid, en ein rannsókn tók saman 66 mismunandi einkenni (Hannah et al, 2020). Flestir eru þetta kvillar sem hrjá almenna borgara frá degi til dags óháð því hvort þeir hafi fengið Covid eður ei. Margir þeirra eru algengir í kjölfar veirusýkinga almennt, en það er ekki óalgengt að heilbrigt fólk sé í nokkra mánuði að ná sér eftir flensu. Aðrir eru afleiðing alvarlegra veikinda og spítalainnlagnar, en fólk er gjarnan í nokkra mánuði að jafna sig eftir slíka lífsreynslu, og þarf stundum á endurhæfingu að halda. Sitthvað virðist þó benda til þess að sumir þessara kvilla séu algengari í kjölfar Covid sýkingar, og í einhverjum tilfellum alvarlegri. Þeir sem upplifa einhver þessara einkenna, upplifa þó einungis nokkur þeirra.

Ein ástæða ringulreiðarinnar er sú að lýsingar á einkennum byggja á upplifunum einstaklinga, og þær eru jafn misjafnar og þær eru margar. Sumir lýsa vægum einkennum eins og þreytu seinni part dags, mæði við að labba upp stiga, eða glötuðu lyktarskyni. Aðrir lýsa fleiri og tíðari einkennum. Brot af einstaklingum með langvarandi Covid lýsir svo alvarlegri einkennum, eins og heilaþoku eða þreytu sem hefur veruleg áhrif á þá, með þeim afleiðingum að þeir geti ekki sinnt hversdagslegum störfum og erindum. Það er hörmulegt að einhverjir upplifi þessi alvarlegri einkenni, og hafa þeir fulla samúð okkar og þurfa að fá nauðsynlega aðstoð. Vandinn við umræðuna er þó að þessi breiði hópur fólks er allur settur undir sama hatt. Þar af leiðir á meðalmanneskjan erfitt að meta tíðni, tímalengd og alvarleika þessi fyrirbrigðis, því á yfirborðinu virðist þetta bæði algengt og alvarlegt.

Það er erfitt að meta tíðni langvarandi Covid vegna þess að fjöldi þeirra sem greina frá einkennum er ýmist birtur annað hvort 

  • Sem hlutfall af þeim sem hafa greinst með Covid, eða
  • Sem hlutfall af þeim sem hafa veikst alvarlega af Covid.

Út frá þessari tölfræði er erfitt að meta það hvort meðal manneskjan sem smitast sé líkleg til að upplifa langvarandi Covid, því aðeins brot af þeim sem smitast greinast (t.d. 1 af hverjum 4,6 í BNA samkvæmt Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC), og talsvert minna brot af þeim sem greinast veikjast alvarlega (t.d. um 5% þeirra sem hefur smitast í BNA, og þá aðallega eldra fólk eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma, samkvæmt CDC). 

Ef tíðni langvarandi Covid meðal ofangreindra hópa liggur fyrir, þá þarf fyrst að meta hve líkleg meðalmanneskjan er til að greinast eða veikjast illa, að því gefnu að hún fái  Covid, og út frá því má áætla um það bil hve líkleg meðal manneskjan er til að upplifa langvarandi Covid í einhverri mynd.

Hlutfallið sem raunverulega gefur vísbendingu um líkurnar á að einstaklingur muni upplifa langvarandi Covid í einhverri mynd, er hlutfall þeirra sem smitast af Covid sem upplifa einkenni langvarandi Covid. Til þess að vita hve stórt hlutfall einkennanna má rekja til Covid þyrfti að bera þetta hlutfall saman við hlutfall þeirra sem smitast ekki af Covid en upplifa samt einkenni langvarandi Covid, til dæmis vegna annara undirliggjandi sjúkdóma, skammdegis eða vegna þeirrar kyrrsetu og félagslegu einangrunar sem er afleiðing sóttvarnaraðgerða. Með þessum samanburði væri komin góð mynd á tíðni langvarandi Covid í öllum sínum birtingarmyndum. Þessar tölur liggja því miður ekki fyrir, en það má áætla þær gróflega út frá niðurstöðum úr rannsóknum sem birtar eru að neðan.

Ein sú rannsókn sem kom umræðunni um langvarandi Covid af stað safnaði upplýsingum í gegnum samfélagsmiðla vorið 2020. Þátttakendur voru einstaklingar sem greindu frá einkennum sem þeir vildu bendla við Covid. Af þeim 640 sem tóku þátt sagðist fjórðungur hafa verið neitað um að fara í skimun (PCR próf), tæplega fjórðungur hafði ekki farið í skimun og rúmlega fjórðungur hafði einungis fengið neikvæða niðurstöðu úr Covid prófi. Aðeins 23,1% þátttakenda höfðu fengið staðfestingu á smiti. Þetta gefur til kynna að einstaklingur þarf ekki að hafa smitast af Covid til þess að upplifa einkenni sambærileg þeim sem fólk greinir frá í kjölfar Covid sýkinga, og að sumir sem hafa fengið Covid og upplifa langvarandi einkenni gætu hafa upplifað þau án þess að hafa nokkurn tímann smitast, en mörg einkenna sem fólk greinir frá eru til dæmis keimlík einkennum vefjagigtar, sem er talið hrjá allt að 3% Íslendinga á hverri stundu.

Margir þeirra sem upplifa langvarandi Covid hafa ekki ekki smitast eða fengið staðfestingu á smiti.

Það eru ýmsar kenningar til um það hvað það er við SARS-COV-2 sem veldur langvarandi Covid. Eins og aðrar öndunarfærasýkingar, þá hefur Covid áhrif á lungu fólks (Rossana, 2020), jafnvel hjá þeim sem í fyrstu voru einkennalausir (Long et al, 2020), en flestir ná skjótum bata. Samkvæmt Stefáni Yngvasyni, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi, þá ,,er vel þekkt að margar veirusýkingar geta haft svipuð einkenni og langvarandi þreytu og erfiðleikaeinkenni”. Margir kannast við það að vera fleiri mánuði að ná upp þoli og fullri heilsu eftir kvef eða flensu – svokallað Post-viral Syndrome getur átt hlut í að útskýra það. Nú þegar veira gengur um sem er meira smitandi og nær til fleiri en hefðbundin flensa, þá er ekki nema von að þreyta og slappleiki sé meira áberandi. Langvarandi Covid er alvarlegra og algengara hjá eldra fólki og fólki sem var lagt inn á spítala (sem er einnig yfirleitt eldra eða með undirliggjandi sjúkdóma), en það er ekki óalgengt að fólk lýsi sambærilegum einkennum og sé lengi að ná sér eftir spítalainnlagnir. Oxford-háskóli greinir sérstaklega frá því að 60-80% fólks upplifi óráð (e. delirium) á gjörgæslu almennt, og að 20-30% fólks upplifi áfallastreitu (PTSD) í kjölfar dvalar á gjörgæslu. Þeir sem greina frá einkennum hafa lýst því sem svo að þau komi og fari, og færist um líkamann, og mörg einkenni virðast ekki hafa neina líkamlega skýringu, heldur eru þau huglæg. Að lokum má nefna sálrænu áhrif þess að smitast, heltekinn af ótta við langvarandi Covid, en hugurinn er öflugt tól, stress veikir ónæmiskerfið (Segerstrom & Miller, 2004), og óttinn getur ekki hjálpað. 

Margir eru sannfærðir um að SARS-COV-2 hafi komið úr leðurblöku eða verið búin til á rannsóknarstofu í Kína. Fyrir mörgum gæti veiran allt eins verið frá plánetunni Mars, óttinn væri jafn mikill. Kenningin sem hefur mestan grundvöll er að veiran eigi uppruna sinn að rekja til leðurblakna, en það er ekki svo óalgengt að sjúkdómar og veirur berist milla dýra og manna, og það þarf ekki að vera sérstakt áhyggjuefni. Í raun er þetta allt fullkomlega náttúrulegt og eðlilegt. Í grunninn þá er veiran svipuð öðrum kórónaveirum og öðrum veirum sem stökkbreytast iðullega, berast á milli manna og valda öndunarfærasýkingum. Helsti munurinn er sá að ónæmiskerfi manna þekkja ekki SARS-COV-2 eins vel og aðrar veirur sem eru skyldari þeim sem við höfum áður smitast af. Afleiðingin er sú að ónæmiskerfin okkar þurfa meiri tíma til að takast á við veiruna, það getur reynst sumum erfitt, og það getur tekið tíma fyrir líkamann að jafna sig í kjölfarið.

Þegar kemur að því að meta alvarleika langvarandi Covid, möguleg áhrif þess á samfélagið og hve langt okkur ber að ganga til að forðast það, þá er nauðsynlegt að skilgreina þá birtingarmynd langvarandi Covid sem er raunverulegt áhyggjuefni. Að vera slappur eftir veikindi er leiðinlegt, en ef fólk getur sinnt daglegum verkum og nær sér á innan við þremur mánuðum, þá er hvorki réttlætanlegt né nauðsynlegt að beita ströngum sóttvarnaraðgerðum með viðamiklum og hrikalegum afleiðingum til að koma í veg fyrir það. Hver væri ekki tilbúinn að taka það á sig að vera slappur í nokkrar vikur eða mánuði til þess að draga úr því efnahagslega hruni sem er yfirvofandi, og áhrifum þess á börnin okkar? Einstaklingi ber ekki að óttast veiru sem er ólíkleg til að draga hann til dauða og er ólíkleg til að valda honum skaða sem hefur umtalsverð áhrif á líf hans til skemmri eða lengri tíma. Raunsæ manneskja myndi ekki krefjast strangra sóttvarnaraðgerða til að vernda sig fyrir slíkri veiru. Ef ekki væri fyrir dánartíðni, alvarleg veikindi sem krefjast innlagnar á spítala og tilvist alvarlegri tilfella af langvarandi Covid, þá væri enginn faraldur.

Niðurstöður úr rannsóknum

Bretar, eru mjög uppteknir af langvarandi Covid. Flestar rannsóknir um viðfangsefnið berast þaðan. Nokkuð snemma í faraldrinum þróuðu þeir smáforritið JoinZoe til þess að fylgjast með og safna upplýsingum um einkenni fólks sem hefur greinst með Covid. Þeir hafa líka boðið fólki frá öðrum þjóðum að skrá upplýsingar um einkenni sín í gegnum smáforritið. Svo hefur verið unnið úr gögnunum til þess að meta tíðni og varanleika einkenna.

Sérfræðingar við King‘s College London greindu gögn frá rúmlega 4182 einstaklingum sem höfðu tekið þátt og fengið jákvæða niðurstöðu úr skimun (PCR prófi), en greinin var birt í Nature Medicine vorið 2021. Viðfangsefnin voru frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð. Ef einstaklingur greindi ekki frá neinu einkenni í 7 daga, þá var hann álitinn læknaður. Einnig var gerð krafa um að fólk upplifði nokkur mismunandi einkenni til þess að vera stimplað með langvarandi Covid, en í öðrum rannsóknum er yfirleitt nóg að vera með eitt einkenni, eins og skort á lyktarskyni, sem er fráleitt.

13,3% þátttakenda greindu frá einkennum sem entust lengur en fjórar vikur, 4,5% lengur en átta vikur, og einungis 2,3% lengur en tólf vikur (Sudre et al, 2021). Þannig 97,7% þátttakenda náðu sér nokkuð hratt.

Konur voru tvöfalt líklegri en karlar til að greina frá einkennum, og konur á aldrinum 50 til 60 ára voru átta sinnum líklegri en þær sem voru á aldrinum 18 til 30 ára, en vefjagigt er einmitt líka algengust hjá konum á miðjum aldri. Þetta er í samræmi við það sem komið hefur fram hérlendis, en í janúar 2021 greindi fréttamiðillinn Vísir frá því að flestir sem leita til Reykjalundar vegna eftirkasta Covid séu á aldrinum fjörutíu til sextíu ára og sá yngsti um þrítugt. Rannsakendur greina frá því að tíðni og tímalengd einkenna aukist eftir hækkandi BMI, og eftir því hvort fólk væri með astma. Því veikari sem einstaklingur var í fyrstu vikunni, því líklegri var hann til að upplifa langvarandi Covid, sér í lagi ef hann var lagður inn á spítala.

Þessi rannsókn leiddi því í ljós að þó ungt og heilbrigt fólk geti upplifað einhver einkenni Langvarandi Covid, þá hrjáir þetta frekar eldra fólk, fólk í yfirvigt og þá sem veikjast illa, og því má áætla að Langvarandi Covid verði talsvert minna áhyggjuefni fyrir samfélagið eftir að flestir með undirliggjandi einkenni eða yfir sextugu hafa verið varðir með bóluefnum.

Önnur túlkun á gögnum úr JoinZoe leiddi í ljós að einn af hverjum 10 greindi frá einkennum í meira en 3 vikur, en 3 vikur flokkast varla undir langvarandi einkenni. British Medical Journal greindi einnig frá því í ágúst 2020 að 10% Covid sjúklinga væru ennþá með einkenni eftir þrjár vikur, en að hlutfallið minnki með tímanum (Greenhalgh et al, 2020).

Ókosturinn við þessar JoinZoe rannsóknir er að þær byggja á gögnum sem eru söfnuð í gegnum smáforrit, en það má vera að fólk hafi verið tregt að skrá einkenni sín. Hins vegar má líka vera að þeir sem upplifðu engin einkenni hafi hætt að taka þátt. Það má lengi deila um gæði gagnanna, en þetta er það sem við höfum. Eitt er þó ljóst að þessi rannsókn náði ekki til þess stóra hóp fólks sem smitaðist en fékk aldrei greiningu, en hélt bara áfram með lífið sitt eins og ekkert væri.

Niðurstöður frá Tölfræðistofnun Bretlands

Tölfræðistofnun Bretlands, ONS, er dugleg að fylgjast með einkennum fólks í kjölfar Covid sýkinga. Þeir leggja spurningarlista fyrir almenning, óháð því hvort þátttakendur hafi fengið staðfesta Covid greiningu eða ekki. Þær upplýsingarnar sem þessar rannsóknir veita eru ansi takmarkaðar, því við höfum bara áhuga á fólki sem var með Covid. Hins vegar hefur ONS valið þátttakendur af handahófi úr mengi fólks sem hefur fengið Covid greiningu, og lagt fyrir þá vikulega spurningalista um einkenni og líðan. Hér verður fjallað um niðurstöður úr þessum síðarnefndu rannsóknum.

Til þess að skilja þessar rannsóknir er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvernig niðurstöðurnar er metnar. Rannsakandur taka sérstaklega fram að þetta fólk sé ekki endilega búið að hljóta sjúkdómsgreiningu hjá lækni. Í staðin þá er notast við einstaklega miskunnarsama „sjúkdómsgreiningaraðferð”:

Í hverri viku fengu þátttakendur lista yfir einkenni langvarandi Covid, og voru þeir beðnir um að merkja við þau einkenni sem þeir telja sig hafa upplifað síðastliðna viku. Til þess að vera stimplaður með langvarandi Covid þá var nóg að greina frá einhverju einu einkenni af lista, af og til, yfir þessar 12 vikur. Það þurfti ekki að greina frá einkenninu samfellt, heldur mátti það hverfa eina vikuna og koma aftur vikuna eftir.

Ef 5% þátttakenda greina frá skorti á lyktarskyn í 12 vikur, þá segja þeir að 5% fólks sé með langvarandi Covid. Ef önnur 5% fá höfuðverk aðra hverja viku í 12 vikur, þá segja þeir að 10% fólks sé með langvarandi Covid. Þetta er vitanlega fáránlegt, og veitir gagnslausar niðurstöður, því enginn myndi fara fram á strangar sóttvarnaraðgerðir til þess að koma í veg fyrir að einstaka manneskja missi lyktarskynið eða upplifi af og til höfuðverk í 12 vikur! Við erum að leitast eftir upplýsingum um hve stórt hlutfall þjáist af alvarlegu langvarandi Covid, en þær upplýsingar fást ekki úr þessum rannsóknum frá ONS. Engu að síður má lesa eitthvað fróðlegt úr þeim.

Eins og í rannsókninni að ofan, og eins og með vefjagigt, þá greinir ONS frá því að einkenni séu algengust hjá konum á miðjum aldri. Tíðni er líka 50-100% hærri hjá heilbrigðisstarfsfólki, hjá þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma sem hafa áhrif á dagleg störf, og hjá fólki sem býr á afskekktum svæðum. Bólusetning þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, sem og bólusetning margra heilbrigðisstarfsmanna, á að vera lokið hérlendis í lok maí, svo þá minnkar ógnin fyrir samfélagið.

Niðurstöður sem voru birtar í desember 2020 leiddu í ljós að 9,8% þátttakenda hafi upplifað einhvers konar einkenni í 12 vikur eftir greiningu smitsins. Núna í apríl 2021 birtu þeir hins vegar niðurstöður sem leiddu í ljós að 13,7% þátttakenda upplifðu einhvers konar einkenni í 12 vikur eftir greiningu smitsins.

Í næmnigreiningu kemur fram að ef kröfur væru gerðar um að einkennin væru samfelld þá væru einungis 0,9% þátttakenda sem uppfylltu skilyrðin. Þ.e.a.s. aðeins 0,9% þátttakenda greindu frá sama einkenninnu í hverri einustu viku án þess að það hafi horfið í allavega eina viku. Það voru því sárafáir sem þjáðust af þreytu eða höfuðverk samfellt í þessar 12 vikur. Rannsakendur vildu þó meina að það væri réttast að telja einkenni með þó þau hverfi og komi aftur, því þannig er langvarandi Covid gjarnan skilgreint og fólk lýsir einkennum þannig að þau komi og fari. Almenningur gæti þó haft meiri áhyggjur af samfelldum alvarlegum einkennum.

Þó 13,7% upplifi einhver einkenni, af og á, þá upplifir aðeins um helmingur þeirra eða færri hvert einkenni fyrir sig.
Aðeins 0,9% upplifa eitthvað einkenni samfellt í 12 vikur eftir greiningu smits.
Rannsakendur minntust ekki á heilaþoku, þó Íslendingar haldi að það sé algengt í kjölfar Covid.
Hiti var fjarlægður af grafinu, því enginn þátttakenda var með hita í 12 vikur eftir Covid.

Niðurstöður úr öðrum rannsóknum fyrr í faraldrinum sýndu fram á 10% tíðni eftir 3 vikur sem fór svo minnkandi, eða 2,3% tíðni eftir 12 vikur. Þessar síðari aukningar gefa til kynna að hlutfall þeirra sem greinast og upplifa langvarandi einkenni aukist eftir því sem líður á faraldurinn. Það mætti halda að eftir því sem fólk heyrir að langvarandi Covid sé algengara, því líklegra er fólkið til þess að greina frá þessum einkennum. Rannsakendur hjá ONS lýsa einmitt yfir áhyggjum af þessu – þ.e. að þátttakendur gætu verið líklegri til þess að greina frá einkennum langvarandi Covid vegna þess að þeir vita af tilvist þess, og eru sannfærðir um að það sé algengt. Hærri tíðni einkenna hjá heilbrigðisstarfsfólki er einmitt ummerki um þetta, því heilbrigðisstarfsfólk er líklegra til að sjá og heyra meira um langvarandi Covid. Rannsakendur nefna að það að vera meðvitaður um einkennin sé líklegt til að hafa ýkt muninn milli stýrihópsins og þeirra sem greindust með Covid, með þeim afleiðingum að einkennin virðast algengari en þau raunverulega eru.

Einn helsti kosturinn við rannsóknina sem þeir birtu í apríl er að þeir lögðu spurningalistann fyrir stýrihóp fólks sem fór í skimun en fékk neikvæða niðurstöðu, svo það er nokkuð víst að þetta fólk hafi ekki verið með Covid. Þar kom í ljós að 1,7% þátttakenda sem höfðu ekki verið með Covid uppfylltu samt nægjanleg skilyrði til að vera stimplaðir með langvarandi Covid. Skert bragð- og lyktarskyn var eina einkennið sem var einstakt fyrir þá sem höfðu fengið Covid, en tæplega þriðjungur þeirra sem fengu Covid greindu frá skertu bragðskyni og þriðjungur frá skertu lyktarskyni.

Ókosturinn við rannsóknina er sá að allir þolendur eru settir undir sama hatt, svo það er enginn leið að vita hve stórt hlutfall þessa fólks raunverulega þjáist af langvarandi Covid, og hve stórt eru einfaldlega með væg einkenni annað slagið.

Rannsakendur greina frá því að einhverjir hafi neitað þátttöku, sem gæti haft áhrif á niðurstöður, en hver og einn þarf að spyrja sig hvort sá sem nennir ekki að taka þátt í svona rannsókn sé minna eða meira líklegur til þess að greina frá einkennum. Þar að auki voru einhverjir sem hættu þátttöku meðan á rannsókninni stóð, og höfðu rannsakendur áhyggjur af því að þeir hafi hætt vegna einkenna sinna, en það má líka vera að þeir hafi ekki nennt að halda áfram þátttöku einkennalausir, enda leiðinlegt að svara spurningum neitandi viku eftir viku. Það má líka vera að þeir sem hættu þátttöku hafi einfaldlega verið of uppteknir í sínu daglega lífi til þess að hafa tíma til að svara spurningarlistanum. Ekki gott að segja.

Góð viðbót við rannsóknina hefði verið að spyrja þátttakendur í upphafi rannsóknar hvaða hugmyndir þeir hefðu um langvarandi Covid, og þá hefði verið hægt að skoða fylgni milli þess hvort einstaklingur haldi að það sé algengt og hvort hann upplifi einkennin. Eins væri áhugavert að bera til dæmis þreytu og mæði í kjöfar Covid saman við sömu einkenni í kjölfar flensu. Eins væri áhugavert að gefa öðrum stýrihóp falska jákvæða niðurstöðu úr skimun, til þess að telja þátttakendum trú um að þeir hefðu smitast, þó þau hefðu ekki smitast, og fylgjast með tíðni einkenna hjá hópunum þremur. Síðasta hugmyndin stenst hins vegar ekki siðareglur þegar kemur að svona rannsóknum.

Þar sem sum einkennin valda litlu sem engum óþægindum, skulum við skoða tíðni sérhvers einkennis. Við sjáum að aðeins um 8% þátttakenda greindu frá þreytu af og til í 12 vikur. Þannig þó 13,7% upplifi eitthvað einkenni, þá upplifa bara 8% alvarlegasta og algengasta einkennið, þreytu. Af þessum átta prósentum eru svo sjálfsagt margir sem eru bara örlítið þreyttir annað slagið, og tíðni sama einkennis mælist allt að 1,7% hjá almenningi, þó rannsakendur hafi ekki útlistað tíðni sérhvers einkennis meðal þeirra sem voru í stýrihópnum. Þannig er meðaleinstaklingur sem greinist með Covid um fimmfalt líklegri en aðrir til þess að greina frá þreytu af og til næstu 12 vikur, en líkurnar eru minni fyrir ungt og heilbrigt fólk, og meiri fyrir aðra sem margir hverjir verða bólusettir fyrir sumarið.

Þó fólk á miðjum aldri hafi verið líklegra til að uppfylla skilyrðin sem rannsakendur ONS settu, þá greindi ungt líka frá þeim. Af tuttugu þúsund viðfangsefnum voru einhverjir tugir undir 25 ára aldri sem upplifðu langvarandi Covid samkvæmt þeirra skilgreiningu. Á Íslandi höfðu um 6 þúsund manns greinst með Covid í janúar, en sá yngsti sem hafði leitað til Reykjalundar var um þrítugt, og flestir á miðjum aldri. Ef alvarleg tilvik langvarandi Covid væru jafn algeng og rannsóknin gefur til kynna, þá væru um 900 manns búnir að fara á Reykjalund og allavega tíu undir 25 ára aldri, en það er ekki raunin.

Það hvort einkennin séu alvarleg er ekki hægt að meta með svona spurningarlista, heldur þyrfti að fá slíkar upplýsingar frá einhverri heilbrigðisstofnun, þar sem viðfangsefnin þyrftu að undirgangast læknisskoðun og læknir þyrfti að meta ástand þeirra, fylgjast með þeim og bataferli þeirra, og jafnvel aðstoða þau við að ná bata. Gagnlegast væri að læra hve stórt hlutfall þeirra sem smitast af Covid upplifa slæm einkenni sem þeir losna ekki við þó þeir fylgi fyrirmælum heilbrigðisstarfmanna, sinni endurhæfingu og hugsi vel um heilsu sína. Því miður liggja þær upplýsingar ekki fyrir, en það er sjálfsagt eitthvað hlutmengi af þeim sem ofangreindar rannsóknir fjalla um.

Samantekt á niðurstöðum

Þannig virðist það liggja fyrir að 2,3 til 13,7 prósent þeirra sem greinast með Covid upplifa ennþá einhver einkenni þremur mánuðum eftir að þeir fengu greiningu, og um 0,9% fólks finnur fyrir sama einkenninu viku eftir viku í 12 vikur eftir greiningu smitsins. Að svo stöddu er því miður ómögulegt að segja nákvæmlega til um tíðnina, en þessar tölur gefa ágætis hugmynd. Tölur um tíðni per smit liggja ekki heldur fyrir, en það má áætla að sú tíðni sé nokkuð lægri, þar sem margir fá lítil eða engin einkenni og vita ekki einu sinni að þeir hafi fengið Covid. Það er ekki heldur gott að segja nákvæmlega til um hve stórt hlutfall þessara tilfella eru alvarleg og hve mörg þeirra eru raunverulega afleiðing Covid frekar en annarra sjúkdóma sem fólk kann að vera haldið, en ef 3% fólks er með vefjagigt þá gætu 3% þeirra sem smitast af Covid líka verið með vefjagigt, þó rannsóknin frá ONS hafi dregið það í efa að svo stórt hlutfall einkenna sé af völdum annarra sjúkdóma. Hvernig sem niðurstöður eru túlkaðar þá greinir mikill minnihluti þeirra sem sýkjast af Covid ennþá frá einkennum eftir þrjá mánuði.

Annað sem einstaklingi ber að huga að þegar kemur að því að meta algengni Langvarandi Covid, er að hundruðir milljóna hafa smitast af Covid um allan heim. Í Svíþjóð einni og sér er útlit fyrir að allt að 40% fólks sé komið með mótefni við Covid, og CDC áætlar að um 83 milljónir manna hafi smitast. Ef 1% smitaðra hefur upplifað alvarleg einkenni Langvarandi Covid í meira en þrjá mánuði, með þeim afleiðingum að þeir væru einfaldlega óvinnufærir, þá væru það allt að allt að 40 þúsund Svíar og um 830 þúsund Bandaríkjamenn. Ef þetta væri staðan, væru þá Svíar ekki búnir að gjörbreyta um stefnu og farnir að vara heiminn við þessum hörmungum, frekar en að halda áfram að einblína á persónulega ábyrgð og almenna skynsemi? Væru fjórtán ríki í Bandaríkjunum búin að lyfta flest öllum takmörkunum áður en búið er að bólusetja alla? Væru Danir búnir að gera áætlun um að fasa út sóttvarnaraðgerðum á næstu vikum, meðan þeir klára að bólusetja fólk sem er í raunverulegum áhættuhópi vegna Covid? Væru Bretar, sem hafa rannsakað langvarandi Covid hvað mest, byrjaðir að fasa út sóttvarnaraðgerðum þó svo hálf þjóðin sé óbólusett, flestir hinna bara búnir að fá eina sprautu, og þó þeir greini að meðaltali 4500 ný smit í dag, aðallega af breska afbrigðinu (2. apríl 2020)? Hver og einn dæmi fyrir sig.

Þess ber að geta að verstu tilfelli Langvarandi Covid fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Þegar fjölmiðlar hérlendis verða uppiskroppa með innlendar frásagnir, þá greina þeir frá upplifunum einstaklinga erlendis. Tilvist slíkra tilfella og daglegar fréttir um þau þýðir þó alls ekki að þau hrjái hátt hlutfall smitaðra. Þegar hundruðir milljóna hafa smitast um allan heim, þar af 118 milljón greind smit og um 83 milljónir áætluð smit í Bandaríkjunum einum og sér, þá er ekki nema von að einhver þúsund manns þjáist af langvarandi Covid – nóg til að fylla fréttamiðla af hádramatískum persónulegum frásögnum dag eftir dag. En þegar uppi er staðið þá er það einungis tölfræði sem getur gefið góða hugmynd um tíðni einhvers fyrirbæris. 

Hvað þýðir þetta fyrir samfélagið?

Þó langvarandi Covid sé ekki jafn algengt og margan grunar, og einkennin gjarnan væg, þá er mikilvægt að lágmarka þann skaða sem verstu tilfellin geta haft á fólk og samfélagið, og taka þessu fyrirbæri alvarlega. Reykjalundur stendur vaktina og hjálpar fólki í gegnum ferlið. Víðsvegar um heiminn er unnið að því að finna betri og skilvirkari lausnir (NIH, NICE). Ef sumarið verður eins og síðasta sumar þá verður lítið um smit og fólk betur í stakk búið til að takast á við sýkingu. Þar sem tíðni langvarandi Covid eykst með hækkandi aldri og BMI þá þarf að gera bóluefni aðgengilegt fyrir fólk í ofþyngd og fyrir fólk á fimmtugs- og sextugsaldri sem fyrst. Hvetja ætti til heilsueflingar og heilbrigðs lífernis, frekar en að banna íþróttastarfsemi og loka sundlaugum og líkamsræktarstöðvum. Reglugerð um bólusetningar á Íslandi gerir ekki ráð fyrir að forgangsraða bóluefnum til þessara hópa, en vonandi mun almenningur veita þeim forgang.

Heimildir

Hannah E. Davis, Gina S. Assaf, Lisa McCorkell, Hannah Wei, Ryan J. Low, Yochai Re’em, Signe Redfield, Jared P. Austin, Athena Akrami. Characterizing Long COVID in an International Cohort: 7 Months of Symptoms and Their Impact. medRxiv 2020.12.24.20248802; doi: https://doi.org/10.1101/2020.12.24.20248802

Rossana Bussani, Edoardo Schneider, Lorena Zentilin, Chiara Collesi, Hashim Ali, Luca Braga et al. Persistence of viral RNA, pneumocyte syncytia and thrombosis are hallmarks of advanced COVID-19 pathology. Lancet. 2020 Nov. 3. doi: https://doi.org/10.1016/j.ebiom.2020.103104

Long QX, Tang XJ, Shi QL, Li Q, Deng HJ, Yuan J, Hu JL, Xu W, Zhang Y, Lv FJ, Su K, Zhang F, Gong J, Wu B, Liu XM, Li JJ, Qiu JF, Chen J, Huang AL. Clinical and immunological assessment of asymptomatic SARS-CoV-2 infections. Nat Med. 2020 Aug;26(8):1200-1204. doi: 10.1038/s41591-020-0965-6. Epub 2020 Jun 18. PMID: 32555424

Segerstrom, S. C., & Miller, G. E. (2004). Psychological stress and the human immune system: a meta-analytic study of 30 years of inquiry. Psychological bulletin, 130(4), 601–630. https://doi.org/10.1037/0033-2909.130.4.601

Sudre, C.H., Murray, B., Varsavsky, T. et al. Attributes and predictors of long COVID. Nat Med (2021). https://doi.org/10.1038/s41591-021-01292-y

Greenhalgh T, Knight M, Court C, Buxton M, Husain L. Management of post-acute covid-19 in primary care. BMJ 2020; 370 :m3026 doi:10.1136/bmj.m3026

Tengiliðir

Dr. Jón Ívar Einarsson, jeinarsson@bwh.harvard.edu

Sigríður Á. Andersen, saa@althingi.is

Þorsteinn Siglaugsson, thorsteinn.siglaugsson@insead.edu

Erling Ó. Kristjánsson, erlingoskar@tutanota.com