Home » Leiðin út

Leiðin út

Covid er óvenjulegur heimsfaraldur vegna þess að veiran, SARS-COV-2, er sérstaklega hættuleg öldruðum og fólki með tiltekna undirliggjandi sjúkdóma. Covid er hins vegar mjög ólíklegt til þess að draga heilbrigðan einstakling undir sextugu til dauða, en aðeins einn af hverjum 31400 heilbrigðum einstaklingum undir 60 ára aldri sem smitast af veirunni mun láta lífið, meðan 99,9968% lifa.

Samkvæmt CDC þá er eldra fólk er talsvert líklegra en yngra fólk til að veikjast illa og þurfa spítalainnlögn vegna Covid. Um átta af hverjum 10 þeirra sem smitast af SARS-COV-2 finna fyrir vægum eða engum einkennum. Einkenni í kjölfar veikinda endast í allflestum tilfellum bara í nokkrar vikur og virðast sjaldnast valda varanlegum skaða, auk þess sem slappleiki í kjölfar veirusýkingar almennt er þekkt fyrirbæri. Langvarandi Covid er óalgengara en margan grunar, og þó rannsóknir gefi til kynna að á 2,3 – 13,7% þeirra sem greinast með Covid upplifi einhvers konar einkenni af og til næstu 12 vikurnar, þá eru fæst þessara tilfella alvarleg og fólk nær bata. Tíðni langvarandi einkenna er lægri hjá ungu fólki, og algengari og alvarlegri hjá eldra fólki, langveiku fólki og þeim sem veiktust verr, en þessi síðari hópur verður brátt varinn með bóluefni.

Þegar búið verður að bólusetja langveikt fólk og fólk yfir sextugu, hér eftir nefnt fólk í áhættuhópi vegna Covid, þá mun samfélaginu ekki lengur stafa mikil hætta af þessari veiru. Þrátt fyrir að vera meira smitandi verður Covid varla hættulegri en hefðbundin árleg flensa, þegar búið er að bólusetja þá sem eru í áhættuhópi. Það verður því ekki lengur þörf á áframhaldandi sóttvarnaraðgerðum, og ekki lengur hægt að réttlæta þær, þar sem skaði sóttvarnaraðgerða verður augljóslega meiri en hugsanlegur skaði af smitum meðal heilbrigðs fólks undir sextugu. Það er ekki réttlætanlegt að halda samfélaginu í heljargreipum til þess að bjarga örfáum einstaklingum frá veiru sem er gríðarlega ólíkleg til þess að valda þeim varanlegum skaða. Sérhver landsmaður ætti að vera tilbúinn að taka það á sig að veikjast í nokkrar vikur til þess að draga úr því gríðarlega tjóni sem sóttvarnaraðgerðirnar valda og hafa ollið – tjón sem nær til þúsunda manna, kvenna og barna; tjón sem hefur eyðilagt, og mun eyðileggja líf, valda andlegu og líkamlegu heilsutjóni, og valda ótímabærum dauðsföllum langt inn í framtíðina.

Í lok maí er stefnt að því að ljúka bólusetningu þeirra sem eru í áhættuhópi vegna Covid. Þá verður nánast öll hættan af faraldrinum yfirstaðin, og það verður hægt að aflétta sóttvarnaraðgerðum. Lífið getur snúið aftur í sitt eðlilega horf, og efnahagslífið getur fengið að blómstra á ný.

Íslendingar þurfa að gera sér grein fyrir þessu sem allra fyrst, svo hægt verði að snúa við þeim samfélagslega skaða sem sóttvarnaraðgerðirnar hafa, svo fólk geti endurheimt sína andlegu heilsu, og svo hægt sé að skipuleggja og bjarga sumrinu. 

Ef afhendingaráætlun bóluefna stenst verður hægt að aflétta sóttvarnaraðgerðum á Íslandi mánaðarmótin maí/júní.

  • Skimun, sóttkví og kröfur um bólusetningarskírteini á landamærum verða óþarfar.
  • Það verður hægt að afnema grímuskyldu þótt fólki verði að sjálfsögðu frjálst að bera grímu.
  • Það verður hægt að afnema allar fjöldatakmarkanir.
  • Það verður hægt að hætta skimun einkennalausra.
  • Það verður óþarfi að setja fólk í sóttkví.
  • Fólk með einkenni, veikt fólk, getur haldið sig heima eins og venjulega.

Ef svo ólíklega vill til að margir muni veikjast illa, þá verður hægt að meta ástandið út frá fjölda spítalainnlagna. Ef fjöldi spítalainnlagna eykst hratt og það er útlit fyrir því að heilbrigðiskerfið stefni að þolmörkum sínum, þá má biðja almenning um að fara varlegar og bera grímur. Samviskusamir borgarar munu fylgja fyrirmælum og það mun draga úr smitum, en það verður óþarfi að reyna að útrýma veirunni, enda er slíkt ekki hægt. Ef nauðsyn krefur er hægt að setja smitaða í einangrun og biðja þá um að upplýsa þá sem þeir hafa hitt nýlega um að þeir séu smitaðir og þurfi að fara í skimun.

Jafnvel þó upp komi einstaka smit meðal bólusettra, sem er ólíklegt að gerist, þá draga bóluefnin úr alvarleika veikindanna og líkum á andláti hjá þeim fáu sem smitast. Vissulega verða nokkrir einstaklingar í áhættuhópi sem ekki geta þegið bóluefni, en það verður svo lítið hlutfall þjóðarinnar að það verður hvorki nauðsynlegt né réttlætanlegt að halda áfram víðtækum sóttvarnaraðgerðum til þess að vernda þennan litla hóp. Aðstandendur þeirra ættu að vera meðal þeirra sem forgang hafa við bólusetningu, en það er útlit fyrir að bólusettir séu ólíklegir til að smitast og bera smit (Aran, 2021). Vitaskuld eiga menn svo áfram að fara varlega og sinna einstaklingsmiðuðum sóttvörnum, eins og reglulegum handþvotti, takmörkun snertingar við þá sem óttast smit, loftræstingu rýma þar sem fólk kemur saman, og grímunotkun kjósi fólk það.

Lítið um smit á sumrin

Það var lítið um smit síðastliðið sumar á Ísland þrátt fyrir að notast hafi verið við heimkomusmitgát í stað sóttkvíar, og að ferðamenn frá sumum löndum hafi verið undanskildir skimun. Það er lítið um smit á sumrin, og í sumar stafar okkur lítil hætta af smitum, þar sem búið verður að bólusetja þá sem eru í áhættuhópi.
Graf, án kassa sem afmarkar sumartímann, sótt 3. apríl 2021 af https://www.covid.is/tolulegar-upplysingar.

Sumarið 2020 var mjög lítið um smit á Íslandi, þrátt fyrir að ekki hafi verið neitt ónæmi í samfélaginu, engin grímuskylda, og talsvert vægari aðgerðir á landamærunum en í vetur. Enginn lést með Covid hérlendis milli apríl og október. Lítið bar á greindum smitum frá útlöndum yfir sumartímann, en ferðamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi voru undanskildir skimun um tíma, frá 16. júlí, auk þess sem notast var við heimkomusmitgát í stað sóttkvíar yfir mestallan sumartímann. Sumarið 2021 verður talsvert hærra hlutfall þeirra sem hingað koma nú þegar með ónæmi, svo það eru enn minni líkur á því í ár að einstaklingur sem kemur hingað til lands sé smitaður.

Tekin voru um 140 þúsund landamærasýni milli 15. júní og 13. september 2020, en þau skiptust í sýnatöku 1 og 2, svo það má áætla að fjöldi skimaðra viðfangsefna hafi verið um 70 þúsund. Meðal 70 þúsund viðfangsefna greindust einungis 117 virk smit, sem þýðir að aðeins um 0,17% þeirra sem ferðuðust til landsins sumarið 2020 voru smitaðir. Unnið úr gögnum sem sótt voru þann 21. mars 2021.

Í öðrum Evrópulöndum var einnig talsvert minna um smit síðastliðið sumar, þrátt fyrir lítið ónæmi í samfélaginu og þrátt fyrir að sóttvarnarreglur hafi verið talsvert slakari þá en í vetur, en ýmislegt bendir til þess að Covid bylgjur séu nokkuð árstíðarbundnar (Hoogeveen & Hoogeveen, 2021; Margerie, 2021). Ástæður þess geta verið margvíslegar. Fólk eyðir meiri tíma úti, þar sem er talsvert minni smithætta (Weed & Foad, 2020). Útfjólubláir geislar sem fást frá sólinni virðast drepa veiruna eða gera hana óvirka (Choi et al, 2021; Schuit et al, 2020). Rakastig breytist sem gæti haft áhrif á líftíma veirunnar utan líkama einstaklings (Amani et al, 2020). Kuldi og þurrt loft á veturna veikir líka ónæmiskerfi fólks. Fólk hreyfir sig meira á sumrin og er meira úti, fær meira D-vítamín úr sólinni og er almennt heilsuhraustara. Fólk virðist einfaldlega betur í stakk búið að takast á við smit á sumrin. Allt mun þetta vonandi draga úr áhrifum og alvarleika smita hér á landi í sumar eins og síðasta sumar.

Mikill samdráttur í fjölda dauðsfalla (e. Number of deaths) af völdum Covid yfir sumartímann í Evrópu, gefur til kynna að einnig hafi verið samdráttur í fjölda smita.
Það var líka samdráttur í fjölda nýrra greindra smita í Evrópu á sama tímabili, þrátt fyrir að lönd hafi skimað meira eftir veirunni yfir sumarið en um vorið.
Graf, án kassa sem afmarkar sumartímann, sótt 20. mars 2021.

Bólusetning heldur svo áfram í sumar á Íslandi. Með hjálp náttúrulegra smita til viðbótar við bólusetningu verður hjarðónæmi mögulega náð áður næsta bylgja gæti annars skollið á haustið 2021. Samkvæmt bólusetningardagatali verður byrjað að bólusetja fólk sem er ekki í áhættuhópi strax í maí. Þeir sem hafa mestar áhyggjur af því að smitast geta haldið áfram að fara varlega þar til þeir hafa verið bólusettir. Það er enginn þörf á að ná hjarðónæmi áður en hægt er að lyfta takmörkunum, því eina ástæðan fyrir því að draga úr smitum í upphafi var að vernda þá sem eru í áhættuhópi og til þess að „fletja út bylgjuna“, þ.e. draga úr hraða smitfjölgunar, svo heilbrigðiskerfið réði við álagið. Því markmiði hefur verið náð. 

Önnur lönd lyfta takmörkunum

Eins og mörgum er kunnugt þá hafa sóttvarnaraðgerðir í Svíþjóð verið minna afgerandi en í öðrum löndum, og þó þeir hafi sett á einhverjar takmarkanir í vetur þegar álagið á spítalana var mikið þá styðjast þeir að mestu við einstaklingsbundnar sóttvarnir og reiða sig á persónulega ábyrgð og almenna skynsemi. Þrátt fyrir vægar sóttvarnaraðgeðrir hefur verið mikill samdráttur í fjölda dauðsfalla þar í landi eftir að bólusetningar hófust, enda búið að vernda langflesta sem eru í áhættuhópi vegna Covid. Þess ber að geta að hér er ekki verið að mælast fyrir því að Ísland fari sömu leið og Svíþjóð fór. Svíar reyndu að vernda viðkvæma hópa frá Covid, án þess að skuldsetja sig og fórna heilsu og framtíð komandi kynslóða. Vernd viðkvæmra gekk ekki fullkomlega hjá þeim, þó uppsafnaður fjöldi dauðsfalla af völdum Covid á hverju milljón íbúa sé lægri hjá þeim en í 26 öðrum löndum, þar af um 20 Evrópuríkjum sem beittu mun strangari og kostnaðarsamari sóttvarnaraðgerðum en Svíar. Í þessari grein er hins vegar mælst fyrir því að Ísland hætti að skuldsetja sig og fórna komandi kynslóðum eftir að búið er vernda viðkvæma vikvæma, á meðan verið er að bólusetja aðra, og yfir sumartímann meðan minna er um smit og við erum betur í stakk búin að takast á við sýkingu.

Þann 30. mars höfðu fjórtán ríki í Bandaríkjunum nú þegar lyft takmörkunum eftir að hafa bólusett flesta sem eru í áhættuhópi. Sum þeirra lyftu takmörkunum í febrúar eða fyrr, en fjöldi Covid-tengdra dauðsfalla á dag hefur samt haldið áfram að lækka og verið í svipuðu fari og í öðrum fylkjum þar sem eru ennþá strangar og kostnaðarsamar takmarkanir.

Þann 30. mars höfðu fjórtán ríki í Bandaríkjunum nú þegar lyft takmörkunum eftir að hafa bólusett flesta sem eru í áhættuhópi.

Frændur okkar Danir hafa gert áætlun um að fasa út sóttvarnaraðgerðum á tímabilinu milli 6. apríl og miðjum júní, enda er bólusetning þeirra sem eru í áhættuhópi í fullum gangi þar í landi eins og hér. Bretar eru líka byrjaðir að fasa út sóttvarnaraðgerðum í sínu heimalandi, enda búnir að bólusetja hálfa þjóðina með að minnsta kosti einum skammti. Chris Witty, prófessor og faraldsfræðingur, yfirlæknir (e. Chief Medical Officer) Bretlands segir að eftir afnám takmarkanna þá sé ólíklegt að lokunum verði beitt aftur gegn Covid þar í landi, enda þolir samfélagið það ekki til lengri tíma.

Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir Íslendinga?

Samfélagið hefur orðið fyrir miklu tjóni vegna aðgerða tengdra Covid. Fólk verður í mörg ár að ná andlegri og líkamlegri heilsu eftir kyrrsetu, einangrun og linnulausan hræðsluáróður í fréttum. Börn og unglingar hafa misst af dýrmætum námstíma. Ungt fólk hefur tapað dýrmætri starfsreynslu á upphafsárum starfsævinnar. Láglaunafólk í þjónustustörfum sem ber grímur allan daginn hefur lagt mikið á sig án lítillar umbunar. Atvinnulausir eiga rétt á að snúa aftur á vinnumarkaðinn. Lítil fjölskyldufyrirtæki í ferðaþjónustu eiga rétt á að fá tækifæri til að bjarga í sumum tilvikum ævistarfinu. Efnahagurinn verður að fá tækifæri til að ná sér aftur á strik og skuldasöfnun ríkisins verður að linna. Engu ríki hefur tekist að vernda heilsu, hvað þá líf, borgara sinna með því að verða fátækara. Ísland verður fátækara með hverjum deginum sem líður í því lokaða hagkerfi sem okkur hefur verið búið síðasta árið. Það er ekki hægt að skuldsetja komandi kynslóðir enn frekar til að vernda okkur frá faraldri sem við erum búin að sigrast á. Sumarið er tíminn.

Heimildir

Aran, Dvir. Estimating real-world COVID-19 vaccine effectiveness in Israel using aggregated counts. medRxiv 2021.02.05.21251139; doi: https://doi.org/10.1101/2021.02.05.21251139

Martijn J. Hoogeveen, Ellen K. Hoogeveen. Comparable seasonal pattern for COVID-19 and Flu-Like Illnesses. medRxiv 2021.02.28.21252625; doi: https://doi.org/10.1101/2021.02.28.21252625

Margerie, Emmanuel de. COVID-19 spread and Weather in U.S. states: a cross-correlative study on summer-autumn 2020. medRxiv 2021.01.29.21250793; doi: https://doi.org/10.1101/2021.01.29.21250793

Weed, Mike & Foad, Abby. Rapid Scoping Review of Evidence of Outdoor Transmission of COVID-19. medRxiv 2020.09.04.20188417; doi: https://doi.org/10.1101/2020.09.04.20188417

Yeon-Woo Choi, Alexandre Tuel, Elfatih A. B. Eltahir. On the Environmental Determinants of COVID-19 Seasonality. medRxiv 2021.03.01.21252243; doi: https://doi.org/10.1101/2021.03.01.21252243

Schuit M, Ratnesar-Shumate S, Yolitz J, Williams G, Weaver W, Green B, Miller D, Krause M, Beck K, Wood S, Holland B, Bohannon J, Freeburger D, Hooper I, Biryukov J, Altamura LA, Wahl V, Hevey M, Dabisch P. Airborne SARS-CoV-2 Is Rapidly Inactivated by Simulated Sunlight. J Infect Dis. 2020 Jul 23;222(4):564-571. doi: 10.1093/infdis/jiaa334. PMID: 32525979; PMCID: PMC7313838. https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/32525979/

Audi Amani, AlIbrahim Malak, Kaddoura Malak, Hijazi Ghina, Yassine Hadi M., Zaraket Hassan. Seasonality of Respiratory Viral Infections: Will COVID-19 Follow Suit? Front. Public Health, 15 September 2020. doi: https://doi.org/10.3389/fpubh.2020.567184

Tengiliðir

Dr. Jón Ívar Einarsson, jeinarsson@bwh.harvard.edu

Sigríður Á. Andersen, saa@althingi.is

Þorsteinn Siglaugsson, thorsteinn.siglaugsson@insead.edu

Erling Óskar Kristjánsson, erlingoskar@tutanota.com