Sannleikurinn er samstöðunni æðri

Birt í Morgunblaðinu 6. jan. 2022

Sérfræðingar eru ekki einhuga um ágæti þess að bólusetja heilbrigð 5-11 ára börn við COVID-19. Að svo stöddu mæla m.a. Franska Læknaakademían, hin breska Ónæmis- og Bólusetninganefnd (JCVI) og Lýðheilsustofnun Noregs ekki með bólusetningu heilbrigðra 5-11 ára barna. Þessi lönd eru að mestu leyti sammála um að heilbrigðum börnunum stafi lítil hætta af veirunni. Sum lönd hafa þó ákveðið að bólusetja heilbrigð börn, ekki til að vernda börnin sjálf frá veikindum, heldur í von um að draga úr smitum í samfélaginu og vernda þannig heilbrigðiskerfi og eldra fólk.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld halda því hins vegar fram að börnunum stafi hætta af veirunni og vísa til þess að verði þau ekki bólusett muni mörg leggjast inn á spítala og valda álagi á heilbrigðiskerfið. Bólusetning sé því til að vernda líf og heilsu barnanna sjálfra.

Greining á tölfræðinni leiðir þó í ljós að sóttvarnalæknir virðist ítrekað ofmeta tíðni alvarlegra veikinda af völdum COVID-19 hjá 5-11 ára börnum. Um þetta hefur lítið verið fjallað opinberlega, enda hefur lítið borið á framlagi fræðimanna og heilbrigðisstarfsfólks í umræðunni. Mikilvægt er hins vegar að staðreyndir líkt og þessar séu uppi á borðum þannig að bólusetningar geti farið fram á réttum forsendum.

Ofmat á tíðni spítalainnlagna hjá börnum

Þann 13. desember hélt sóttvarnalæknir því fram að 0,6% barna á aldrinum 5-11 ára sem smitist af COVID-19 þurfi að leggjast inn á spítala. Eftir ábendingar breytti hann mati sínu og áætlar síðan 17. desember að hlutfallið sé 0,42%.

Hið síðara mat hans stangast þó enn á við raungögn. Þann 20. desember 2021 höfðu rúmlega 2.500 börn á þessum aldri hafi fengið COVID-19 og lokið einangrun. Samkvæmt uppfærðu mati sóttvarnalæknis hefðu 10 þeirra átt að leggjast inn á spítala. En í raun lagðist ekkert af þessum 2.500 börnum inn á spítala vegna COVID-19, samkvæmt Landlæknisembættinu.

Samkvæmt Lýðheilsustofnun Finnlands hafa 33 börn á aldrinum 5-11 ára þurft að leggjast inn á spítala með COVID-19 þar í landi, en það eru aðeins 0,2% þeirra sem greinst hafa með veiruna. Yfirleitt lágu börnin aðeins inni í 1-2 daga. Sóttvarnalæknir virðist ekki hafa gætt þess að bera ályktun sína saman við tiltæk gögn áður en hann birti þetta nýja ofmat.

Það þarf ekki menntun í læknisfræði til að sjá að mat sóttvarnalæknis gengur ekki upp. Grunnnámskeið í tölfræði dugar til. Ef barn smitast getur það annað hvort lagst inn á spítala eða ekki. Líkur á innlögn eru að jafnaði þær sömu í hverju tilfelli. Tilfellin eru óháð. Um tvíkostadreifingu er að ræða.

Ef eitt af hverjum 238 börnum (0,42%) sem smitast þurfa að leggjast inn á spítala má hæglega reikna líkurnar á að ekkert barn af 2.500 smituðum leggist á spítala. Eins má reikna líkurnar á að eitt barn lendi á spítala, og tvö, o.s.frv.

Á súluritinu sést að ef mat sóttvarnalæknis stæðist væri nær útilokað að innlagnir væru jafn fáar og raun ber vitni, enda væru líkur á 0 innlögnum aðeins 0,00000027%. Að mat hans standist er því tölfræðilega nánast ómögulegt. Það er því ljóst að raunverulega tíðnin er töluvert lægri en 0,42%.

Börnin bólusett á fölskum forsendum

Engin umræða virðist hafa átt sér stað meðal lækna áður en ákveðið var að hefja  bólusetningu 5-11 ára barna. Það að teymi sóttvarnalæknis hafi ekki leiðrétt mat hans bendir til þess að engin áreiðanleg greining á ávinningi og áhættu hafi átt sér stað hjá embættinu. Þess í stað virðist ákvörðunin byggja á einum óritrýndum pistli sem sóttvarnalæknir birti 13. desember. Það liggur ekki fyrir raunhæft mat á þeirri litlu hættu sem börnum stafar af veirunni. Án þess er ómögulegt að segja til um ásættanlega áhættu af völdum bóluefnisins.

Í fréttum hefur ítrekað verið greint frá mati sóttvarnalæknis á tíðni innlagna, og almenningi ranglega talin trú um að án bólusetninga muni 100-200 börn leggjast inn á spítala. Foreldrum er þannig gert erfitt fyrir að taka upplýsta ákvörðun um bólusetningu barna sinna. Sóttvarnaryfirvöldum ber að upplýsa almenning með áberandi hætti um þessi mistök.

Réttast væri að bíða með að bólusetja börnin í það minnsta þar til gagnrýnin umræða hefur átt sér stað og  gengið hefur verið úr skugga um að ávinningurinn af bólusetningu sé meiri en áhættan fyrir heilbrigð 5-11 ára börn að teknu tilliti til kyns. Sérstaklega með tilkomu Omicron afbrigðisins, sem virðist vera skaðminna. Auk þess sem virkni bóluefnanna gegn þessu nýja afbrigði hefur ekki verið rannsökuð.

Það er skiljanlegt að fólk vilji standa saman á þessum tímum og forðast það að gagnrýna ákvarðanir sóttvarnalæknis. En samstaðan má ekki lama gagnrýna hugsun og umræðu, sérstaklega þegar kemur að heilsu barna okkar.

Höfundur

Erling Óskar Kristjánsson, B.S. í verkfræði, vefstjóri, erlingoskar@tutanota.com