Um okkur

Tilraunir til að takast á við og ráða niðurlögum kórónaveirufaraldursins á Íslandi hafa þegar skapað ástand sem valdið getur ómældu tjóni á lífi, heilsu og afkomu fólks og gæti varað árum saman. Yngri kynslóðir, tekjulágir og jaðarsettir hópar samfélagsins verða verst úti. Umræður um ástandið og afleiðingar þess hafa mætt mikilli andstöðu og vangaveltur um skynsamlegar, skaðaminni og árangursríkari leiðir til að mæta ástandinu hafa verið kveðnar niður. Þessu á enginn að venjast í opnu lýðræðisríki – þessi umræða verður að fara fram fyrir opnum tjöldum.

Aðgerðir stjórnvalda verða að miða að því að lágmarka heildartjónið sem hlýst af kórónuveirufaraldrinum en ekki eingöngu tjónið af þessum tiltekna sjúkdómi. Aðgerðirnar verða að mæta faraldrinum til lengri og skemmri tíma.

Við erum hópur fólks úr ýmsum geirum samfélagsins og viljum leggja okkar af mörkum til að bæta upplýsingagjöf um kórónuveirufaraldurinn, afleiðingar og aðgerðir ásamt því að færa skoðanaskipti upp á yfirborðið og móta tillögur að leiðum út úr þessu ástandi.

Við höfum tvö meginmarkmið:

  1. Koma á fót opnum vettvangi til upplýsingaöflunar og skoðanaskipta. Við munum opna vefsetur helgað upplýsingagjöf til að varpa ljósi á heildarmyndina og gefa fleirum tækifæri til að láta rödd sína heyrast. Kallað verður eftir viðhorfum sérfræðinga og almennings. Til að auðvelda sérfræðingum að stíga fram án þess að eiga það á hættu að verða fyrir aðkasti innan sinnar starfsstéttar verður þeim gert kleift að leggja skoðun sína fram nafnlaust.
  2. Hafa frumkvæði að mótun heildstæðrar stefnu sem grundvallast á stjórnarskrárvörðum réttindum fólks og lýðheilsustefnu ásamt staðreyndum um sjúkdóminn og meðhöndlun hans. Stefnan verður raunhæf, framkvæmanleg og til þess fallin að lágmarka skaðann af kórónuveirufaraldrinum.

Aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að takast á við kórónaveirufaraldurinn hafa þegar valdið miklum hliðaráhrifum. Stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar er mjög laskaður, tugþúsundir hafa misst atvinnuna, fátækt fer hraðvaxandi, nám og tómstundastarf barna og ungmenna hefur ítrekað verið sett út af sporinu. Sá mikli kostnaður sem ríkið þarf að bera vegna aðgerðanna mun að öllum líkindum endurspeglast í veikara velferðarkerfi í framtíðinni. Einnig verður að líta til neikvæðra áhrifa aðgerða á heilsufar og heilbrigðisþjónustu svo sem töf á valkvæðum aðgerðum, hugsanlega seinkun á greiningu krabbameina, aukinnar tíðni sjálfsmorða og heimilisofbeldis.

Dánarlíkur af völdum COVID-19 eru mjög tengdar aldri og áhættuþáttum og er dánartíðni barna og ungmenna 29 ára og yngri mjög lág (0,001% til 0,01%)1 en dánartíðni 70 ára og eldri er 4,4-10.8%1,2. Dánarhlutfall COVID-19 hefur hins vegar farið lækkandi í öllum aldurshópum á síðastliðnum mánuðum3. Það er því mjög mikilvægt að vernda viðkvæma einstaklinga og það tókst nokkuð vel í fyrstu bylgju faraldursins í vor en það hefur tekist síður vel í haust.

Við teljum að ef haldið er áfram á sömu braut og nú verði skaði aðgerða mun meiri en skaði af völdum COVID-19.  Skaðinn mun leggjast af miklum þunga á yngri kynslóðir, tekjulága, og jaðarsetta hópa samfélagsins.

Við teljum nauðsynlegt að dýpka umræðu um kórónuveirufaraldurinn og viðbrögð við honum. Stefnan nú virðist vera að stöðva veiruna hvað sem það kostar og bíða eftir bóluefni. Við teljum þetta ekki vera góða nálgun. Það er vissulega mjög ánægjulegt að áhrifarík bóluefni séu að koma fram og almenn bólusetning getið þannig orðið til þess að flýta endalokum faraldursins. Fram hjá því verður þó ekki litið að taka mun talsverðan tíma að bólusetja nægilega marga til að ná nauðsynlegu ónæmi.

Við höfum orðið vör við mikla tregðu til opinnar umræðu um aðferðarfræði sóttvarna vegna COVID-19. Þetta hefur gerst innan margra starfstétta og hefur reyndar verið alþjóðlegt vandamál. Það þarf að opna umræðuna. Læknar og aðrir sérfræðingar verða að geta stigið fram og tjáð skoðanir sínar án þess að eiga á hættu að starfsferill þeirra skaðist, séu skoðanir þeirra ekki í takt við hina opinberu stefnu á hverjum tíma.

Við teljum nauðsynlegt að raunsæjum upplýsingum um faraldurinn, afleiðingar hans og afleiðingar viðbragða við honum sé komið á framfæri við almenning, fjölmiðla, sérfræðinga á ýmsum sviðum og síðast en ekki síst við þá sem bera ábyrgð á sóttvarnaraðgerðum. Hræðsluáróður í fjölmiðlum styður ekki við upplýsta og skynsamlega ákvarðanatöku. Upplýsingar opinberra aðila snúast að mestu leyti um sjúkdóminn og beinar afleiðingar hans, en mun minna fer fyrir umfjöllun um stórfelldar efnahagslegar og heilsufarslegar afleiðingar aðgerða gegn honum, sem verða verri og verri eftir því sem faraldurinn dregst á langinn.

Þær aðgerðir sem hingað til hefur verið beitt gefa til kynna að nánast eina markmið stjórnvalda sé að hægja á útbreiðslu eins tiltekins sjúkdóms. Allt annað víki fyrir þessu markmiði. Þetta markmið er í hrópandi mótsögn við hið eðlilega markmið lýðheilsustefnu, að hámarka heilsufarsleg lífsgæði alls almennings. Markmið stjórnvalda ætti að vera að lágmarka tjónið af faraldrinum og aðgerðum gegn honum til lengri og skemmri tíma.

Arnar Þór Jónsson, Ársæll Jónsson, Bjarni Theódór Bjarnason, Bjarni Jónsson, Björn Jónasson, Brynjar Níelsson, Davíð Snær Jónsson, Eiður Welding, Garðar Árni Garðarsson, Hjalti Baldursson, Jón Ívar Einarsson, Magnús Benediktsson, Magnús Örn Gunnarsson, Sigríður Á. Andersen, Úlfar Steindórsson, Veronika Steinunn Magnúsdóttir, Vilhjálmur Egilsson, Þorsteinn Arnalds, Þorsteinn Siglaugsson

Heimildir:

O’Driscoll M, Dos Santos GR, Wang L et al. Age-specific mortality and immunity patterns of SARS-CoV-2. Nature. 2020 Nov 2. doi: 10.1038/s41586-020-2918-0. Epub ahead of print. PMID: 33137809.

Gudbjartsson DF, Norddahl GL, Melsted P et al. Humoral Immune Response to SARS-CoV-2 in Iceland. N Engl J Med. 2020 Oct 29;383(18):1724-1734. doi: 10.1056/NEJMoa2026116. Epub 2020 Sep 1. PMID: 32871063; PMCID: PMC7494247.

Tengiliðir:

Dr. Jón Ívar Einarsson, jeinarsson@bwh.harvard.edu

Sigríður Á. Andersen, saa@althingi.is

Þorsteinn Siglaugsson, thorsteinn.siglaugsson@insead.edu